Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 18:06:20 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði svo sem heyrt af þessum sáttaumleitunum við Landssamband íslenskra útvegsmanna en ég veit ekki hvernig það hefur farið fram. Ég harma að þær sáttaumleitanir hafi ekki borið árangur, ég bara harma það. Ég ætla ekki að setjast í neitt dómarasæti um það hvorum aðilanum það er að kenna en það er mjög bagalegt.

Ég vil árétta það að ég mun hér eftir sem hingað til passa mig á því að vera ekki að tala fyrir einhverjum sérhagsmunum mínum, það er alveg á hreinu. Þegar ég hef verið að tala fyrir aukningu á aflaheimildum þá hefur þetta verið sagt við mig líka, hvort ég sé ekki bara að hugsa um sjálfan mig. Ég vil að það komi skýrt fram að ég sé hlutina þannig fyrir mér að ef við bætum ekki við aflaheimildir og sköpum verðmæti til þess að hjálpa íslenskri þjóð munu menn á haustdögum, ég vil bara minna á það, fara að velja um það hvort þeir ætli að fara að loka spítölum eða skólum eða þar fram eftir götunum. Það er verkefni okkar fram undan. Veljið þið þetta, (Forseti hringir.) bætið við aflamagni, skapið hér störf, tekjur, eða farið í að skera niður velferðarkerfið enn frekar.