Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 19:24:38 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við sjávarútvegsmál og því miður erum við að ræða þetta stóra mál, þessa meginstoð í íslensku samfélagi, undir mjög neikvæðu andrúmslofti vil ég meina og með neikvæðum formerkjum í raun líka. Ástæðan er vitanlega tvíþætt eða margþætt í rauninni. Það er, eins og margsinnis hefur komið fram, verið að reyna að nálgast það að mynda einhvers konar sátt um helstu álitamálin sem hafa verið uppi varðandi þessa grein og á sama tíma að koma með ákveðnar breytingar á greininni og því kerfi sem er til umfjöllunar m.a. í sáttanefndinni og hafa slík vinnubrögð eðlilega mælst misvel fyrir.

Einhverjum kann að finnast það lítilfjörlegt að vera að gera veður út af þessu en það er vitanlega þannig að í þessum meintu litlu frumvörpum sem eru að koma inn í þingið er verið að taka nokkuð stór skref og það má spyrja sig að því hvort verið sé að koma með grundvallarbreytingar á því kerfi sem hefur verið við lýði ofan í það starf sem er í gangi.

Í þeirri sáttanefnd sem við köllum svo held ég að allir hafi, nema kannski einn aðili, lýst því yfir að núverandi aflamarkskerfi ætti að vera áfram við lýði. Það er í sjálfu sér mikill fengur í því, því að við vitum þá að væntanlega munu koma tillögur úr nefndinni sem lúta í þá veru. Það sem er samt mjög slæmt við þessa umræðu er það að svo virðist sem einhverjir af fylgismönnum stjórnarflokkanna nýti sér þá umræðu sem er í dag um sjávarútveginn, nýti sér þá neikvæðu og oft villandi umræðu til að ná fram einhvers konar hugmyndafræðilegum breytingum sem að mínu viti eru til þess að skaða þessa grein og skaðar í rauninni þá stöðu sem við erum í. Það er í raun mjög sérstakt að ráðast í þá uppstokkun sem menn hafa talað um á sjávarútvegskerfinu þegar við í ljósi þess hruns sem hér varð þurfum á öllum kröftum að halda sem við getum fengið til að ná okkur út úr því umhverfi og þeirri stöðu. Þar gegnir sjávarútvegurinn vitanlega lykilhlutverki og því er í rauninni sorglegt að við séum að takast á um þetta með þessum hætti þegar ró og stöðugleiki þarf að vera í atvinnugreininni.

Það sem mér finnst líka mjög undarlegt í þessari umræðu og annars staðar er það sem virðist hrjá suma að vera gjörsamlega með LÍÚ á heilanum. Það er eins og það sé upphaf og endir alls ills, sem ég skil ekki alveg því að til eru mörg önnur kröftug samtök í sjávarútvegi, hagsmunaaðilar, á Íslandi og það er nú einu sinni svo að sjávarútvegur snýst um miklu, miklu meira en útgerð. Hann snýst vitanlega um fiskvinnsluna, fólkið í landinu, atvinnuréttindi fólksins og ekki síst þá sérfræðikunnáttu sem þar er að baki.

Ég get tekið undir það að þau samtök sem hafa skammstöfunina LÍÚ hafa ekki haldið vel á sínum málum undanfarið, ég get alveg tekið undir það. Mér finnst í raun að sjávarútvegurinn í heild hafi fallið á því prófi að draga upp rétta mynd af þeirri atvinnugrein. Hvort sú mynd hefði breytt einhverju um fyrirætlanir stjórnarflokkanna veit ég ekki en ég veit alla vega að almenningur væri þá rétt upplýstur um hvað er á seyði í atvinnugreininni. Að sama skapi vil ég leyfa mér að gagnrýna ríkisstjórnina og stjórnarflokkana fyrir að hafa staðið hinum megin á vígvellinum með stálhnefann á lofti, þannig að við höfum í raun hvorki komist lönd né strönd enn þá í því að fara í þá vinnu sem menn ætluðu sér, hvað sem okkur finnst um tímasetninguna á því. Sjávarútvegurinn samanstendur ekki bara af fyrirtækjum heldur líka fólki og í þessum fyrirtækjum eru gríðarlega mörg störf undir. Við erum að tala um 8–9 þúsund bein störf og hugsanlega 16 þúsund afleidd störf í sjávarútveginum og það er því engin smáatvinnugrein undir þegar verið er að ræða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Og það má velta fyrir sér hvernig því ágæta fólki sem vinnur í þessum greinum líður með það hangandi yfir sér að óvissa muni hugsanlega ríkja áfram um atvinnu þess.

90% aflaheimilda eru á landsbyggðinni og því finnst mér mjög undarleg sú umræða sem fram fer oft og tíðum, m.a. af hálfu hæstv. ráðherra og ég sakna ráðherrans, frú forseti, við þessa umræðu, og þó að honum sé það ekki skylt og allt í lagi að halda því til haga sakna ég þess. Þessi 90% aflaheimilda skapa að sjálfsögðu störf í þeim byggðum sem hæstv. ráðherra hefur títt rætt um að þurfi að verja. Ég veit um útgerðarfyrirtæki með 300 manns í vinnu hjá sér og ekki á einum stað á landinu heldur fleirum, og þær skerðingar sem þetta fyrirtæki verður fyrir út af hinu svokallaða strandveiðikerfi nema um tveggja vikna vinnu hjá landvinnslufólkinu í því fyrirtæki. Það er ekki eins og verið sé að færa einhverjum eitthvað fyrir ekki neitt, það er verið að taka frá öðrum, það er verið að taka atvinnu frá öðrum þegar verið er að brölta þetta sem verið er að gera núna í þessu strandveiðikerfi svo að dæmi sé tekið.

Síðan vil ég varpa því hér upp að ég tel að Alþingi eða ráðuneytið eigi að taka það upp hjá sér að meta hvað kemur af tekjum út úr sjávarútvegskerfinu eins og það er í dag, hvað fyrirtækin sem starfa í sjávarútvegi í dag, með landvinnslu, með útgerð, eru að skila til ríkisins og til sveitarfélaganna versus það sem kemur út úr strandveiðikerfinu. Þetta á bara að liggja fyrir.

Í því frumvarpi og þeim breytingum sem eru til umræðu í dag — þetta er framhaldssaga löng og ströng, þetta svokallaða skötuselsfrumvarp — og það verður að segjast alveg eins og er og viðurkennast að margt hefur skánað í þessu en því miður er það oft svo og það er akkúrat þannig með þetta að skilin er eftir óvissa um fjölmarga hluti og jafnvel fleiri spurningar en svör. Það sem stendur vitanlega upp úr er þó það og ber að fagna því að nú er í raun veiðisvæðið eitt varðandi hinn landsfræga og heimsfræga skötusel, það er ekki verið að útiloka einhverja eða einhver svæði frá því og ber vissulega að fagna því. En ég vil eins og aðrir hér gera aðeins að umtalsefni karfamálið sem er hluti af þessu, úthlutun í karfanum, þar sem verið er að hverfa frá þeirri hefð sem hefur verið, að úthluta gagnvart veiðireynslu, og það hefur komið hér fram. Eflaust hefur ráðuneytið og nefndarmenn meiri hlutans rök fyrir því af hverju horfið er frá því, en ég vil leyfa mér að hvetja formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, af því að ég veit að hann situr í salnum, og ég treysti honum fyllilega til þess að skoða það, að horft verði til þessa millihóps, til þeirra fyrirtækja sem hér voru nefnd, eins og t.d. ákveðið fyrirtæki í Grundarfirði, að það verði ekki látið ganga yfir það samfélag sem er verið að segja að gerist atvinnulega, verði frumvarpið samþykkt. Ég vil því hvetja formann nefndarinnar, úr því að ráðherra er ekki hér, að beita sér fyrir því að þetta verði skoðað sérstaklega og lagfært. (Gripið fram í: Ég er augu og eyru ráðherrans.) Já, það er ágætt, frú forseti, að ráðherra hefur hér bæði augu og eyru, þá kemst þetta örugglega til skila.

Þetta er stórmál og þetta harmónerar ekki við þá sýn sem hæstv. ráðherra hefur verið að draga upp fyrir þing og þjóð um að styrkja sjávarútveginn í byggðunum, en myndin sem maður sér svona geisla af hæstv. ráðherra er sú rómantíska mynd af sjávarútveginum þar sem fullorðinn maður er á trillu með handfæri. Sjávarútvegur á Íslandi verður aldrei svoleiðis aftur hvað sem menn vilja í því og hvaða drauma menn hafa varðandi það. Menn mega ekki gleyma því að sjávarútvegurinn og þær aflaheimildir sem við höfum í dag, m.a. í Barentshafi svo dæmi sé tekið og í makrílnum sem er mikið rætt um líka, koma fyrst og fremst vegna þess að við höfum öflug skip, öflugar útgerðir sem fara og sækja þessi réttindi, ef má orða það þannig, sækja þennan rétt. Sama á vitanlega við um fyrirtæki eins og ég var að vísa til, að það er búið að sérhæfa sig, er búið að skapa sérhæfingu sem skilar meiri verðmætum og það er ekki hægt að horfa fram hjá því og ég hvet til þess að það verði skoðað sérstaklega.

Það sem skiptir samt mestu þegar upp er staðið er að hagsmunir þjóðarinnar verði hafðir að leiðarljósi og hagsmunir okkar í dag eru að vera með vel rekinn öflugan sjávarútveg sem skilar miklum tekjum til samfélagsins. Ég vil meina að obbinn af sjávarútveginum sé þannig í dag. Hann er vel rekinn, þetta eru öflug fyrirtæki, öflugir einstaklingar sem eru flestir að gera vel það sem þeir gera. Auðvitað er það svo í sjávarútveginum eins og öllum öðrum atvinnugreinum, það er sama hvaða atvinnugrein við tökum, það eru alltaf einhverjir sem spila ekki eftir reglunum eða beygja þær til og frá og það á ekki að verðlauna slíka aðila, ég get tekið undir það. En það er hálfpartinn verið að verðlauna þá með nýju strandveiðikerfi, með því að þeir sem seldu sig út geti komið inn og slíkt. Þetta er svolítið öfugsnúið að manni finnst. En til að horfa fram á við þurfum við vitanlega að klára þá vinnu sem við höfum byrjað á við þessa endurskoðun, og ef halda á henni til streitu verður vitanlega að vera friður og færi til þess. Það byggir vitanlega á því sem hér var rætt í upphafi umræðunnar um þetta mál, sem ég tek heils hugar undir, og það er að við erum að tala um nýtingarrétt á auðlindinni og það er mjög mikilvægt að festa það í sessi ef eitthvað er óskýrt þar. Það er nokkuð skýrt kveðið á um það í fiskveiðistjórnarlögunum í dag en því miður skilja þetta ekki allir eins og þá þarf að skýra það.

Hitt er að það er lykilatriði að atvinnugreinin, sjávarútvegurinn líkt og aðrar atvinnugreinar, sjái langt fram í tímann, geti verið með stöðugt umhverfi því að við þekkjum það og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn hefur komið á hverjum tíma, það er alltaf þessi óvissa um hvað gerist þegar ný ríkisstjórn tekur við. Það er mjög slæmt fyrir atvinnugreinar að búa við það umhverfi að vita ekkert hvað tekur við. Þessi grein þarf að geta séð langt fram í tímann til að geta fjárfest, til að geta endurnýjað sig, því að við vitum að það er mikil endurnýjunarþörf á mörgum sviðum í sjávarútvegi í dag og hún mun ekki eiga sér stað ef menn sjá ekki fram í tímann.

Frú forseti. Ég ætla að endingu að ítreka það sem ég sagði áðan að umræðan um sjávarútveginn snýst ekki eingöngu um þá mynd sem dregin er upp af honum í dag, gjarnan af þeim sem sjá ekkert annað en það að umbylta því kerfi sem er án þess að geta þó rökstutt það neitt sérstaklega. Mjög átakanlegt var að horfa á einn varaþingmann Samfylkingarinnar í Kastljóssþætti um daginn þar sem hann gat ekkert sagt hvað ætti að koma í staðinn þegar búið væri að taka aflaheimildirnar af útgerðunum. Það þarf að skýra það að við erum að tala um nýtingarrétt, það þarf að tryggja fólkinu sem vinnur við þetta stöðugt umhverfi. Það gerum við vitanlega með því að geta horft til langs tíma.

Í rauninni er sorglegt að frumvarpið sem er hér til umræðu skuli fara í gegn með þeim hamagangi sem það gerir, að við skulum ekki vera búin að lenda ákveðnum breytingum sem við viljum gera á fiskveiðistjórnarkerfinu og fara með það í sæmilegri sátt. Ég geri mér grein fyrir að það verður sjálfsagt aldrei algjör sátt en það er nú svo að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi — og þá á ég við þá sem vinna við þetta og starfa í kringum þetta — eru sammála um hvernig á að nálgast þetta að mínu viti. Við megum heldur ekki gleyma því þegar talað er um hagsmuni þjóðarinnar, eins og einhver hv. þingmaður minntist á í dag, að um 40% gjaldeyristekna okkar í dag koma úr sjávarútvegi og þar liggja ekki síður hagsmunir þjóðarinnar. Ég hef ekkert að gera með það að fá úthlutað kvóta af því að ég kann ekki að veiða fiskinn en hins vegar eru það hagsmunir mínir að hann sé veiddur og hann skapi tekjur. Um þetta þarf að skapast starfsfriður og sátt.