Skattlagning afskrifta

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:13:24 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

skattlagning afskrifta.

[17:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara halda því til haga þó að ég sé alveg tilbúin til að fara út í að gerð verði greinargerð og birt úttekt á því svigrúmi sem menn telja að sé til staðar í bönkunum, sem ég tel reyndar að verði að fullu nýtt af hálfu bankanna í afskriftir, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, að ég er ekki þar með að segja að þetta svigrúm sé til staðar sem hv. þingmaður nefndi hér og framsóknarmenn hafa kallað eftir sem er þessi 20% flata afskrift. Ég tel þvert á móti að þetta verði að fullu nýtt í bönkunum. Við skulum bara sjá þegar úttektin liggur fyrir og greinargerð um það hvernig þetta hefur allt saman verið nýtt.

Varðandi skattlagningu á afskriftum er mjög ranglega verið að túlka hvað ríkisstjórnin er að gera í þeim efnum. Ég ítreka að fyrir það fyrsta liggur það ekki fyrir, það var lauslega kynnt fyrir helgi en ríkisstjórnin mun fara yfir þetta á ríkisstjórnarfundi á morgun. Ef t.d. er um skilmálabreytingar að ræða þar sem gengisbundnum lánum er breytt yfir í verðtryggð lán og líka verið að afskrifa einhvern ákveðinn hluta þarf að skoða það í lagabreytingunni að það svigrúm sem þar er nýtt til þess að afskrifa verði ekki skattlagt. En það má ekki vera ótakmarkað þannig að það séu afskrifaðar 100–200 milljónir kr. skuldir, þá erum við farin að afskrifa skuldir hjá t.d. útrásarvíkingum. Hóflegt svigrúm til skattlagningar við skilmálabreytingar þarf að skoða að verði ekki skattlagt þegar við erum að tala þar um afskriftir.

Afskriftir eru ekki skattlagðar og verða ekki skattlagðar að því er varðar nauðasamninga og gjaldþrot. Hv. þingmaður verður líka að vita að almenn niðurfærsla á skuldum hefur hingað til verið skattlögð. Að því er varðar fyrirtækin hafa þau getað nýtt sér tap á móti að ákveðnum hluta. Ef tapið er uppurið hefur skattaskuldinni sem hlýst af niðurfellingu á skuldum verið dreift á fleiri ár. (Forseti hringir.) Ég ætla að biðja þingmenn að mistúlka ekki það sem þó er verið að gera í þessu vegna þess að þetta er allt til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem er verið að gera (Forseti hringir.) að því er varðar þessar afskriftir núna.