Stöðugleikasáttmálinn

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:18:27 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[17:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búinn að vera athyglisverður dagur. Hér eru menn sem alla jafna hafa haldið 1. maí-ræður að klára lög á flugvirkja. Helsta röksemdafærslan var sú, ef marka má orð hæstv. samgönguráðherra sem mælti fyrir málinu, að það væri verið að viðhalda stöðugleikasáttmálanum. (Gripið fram í: Ha?) (Gripið fram í: Væri?) Viðhalda stöðugleikasáttmálanum. Hér hafa menn talað mikið fyrir því að það sé afskaplega nauðsynlegt. Ég held að forustumenn ríkisstjórnarinnar og kannski ekki síst hæstv. forsætisráðherra hafi talað eða a.m.k. mjög eignað sér þann gjörning og talað um það sem mikið afrek að ná þessum stöðugleikasáttmála og það sé forsenda þessarar efnahagslegu endurreisnar.

Það kemur því nokkuð á óvart að á dagskránni í dag, virðulegi forseti, er mál sem mun gera endanlega út af við stöðugleikasáttmálann. Það er ekkert um það deilt, það mun bara gera endanlega út af við stöðugleikasáttmálann. Það er skötuselsfrumvarpið. Að vísu virtust stjórnarliðar setja lögin í dag með nokkuð glöðu geði en ríkisstjórnin ætlaði að snúa upp á einhverjar hendur til að viðhalda stöðugleikasáttmálanum og setja þessi lög á flugvirkja. Nú ætlar hún í kjölfarið, nokkrum mínútum seinna ef þingstörf ganga hratt og vel fyrir sig, að ganga frá stöðugleikasáttmálanum með því að samþykkja skötuselsfrumvarpið.

Ég spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra: Hvað svo? Þegar ríkisstjórnin er búin að ganga frá stöðugleikasáttmálanum, sem ríkisstjórnin ætlar að gera og er búin að lýsa yfir og lofa, hvað ætlar hún að gera þegar stöðugleikasáttmálinn er farinn? Það er ekkert um það deilt að þetta mun þýða að stöðugleikasáttmálinn er ekki lengur til staðar þegar ríkisstjórnin er búin að klára þetta mál.