Stöðugleikasáttmálinn

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:20:36 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[17:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa fyrirspurn sem er alveg rökrétt í framhaldi af því sem Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur haldið fram. Það hefur barist hart gegn skötuselsmálinu, það er alveg ljóst, en mér kemur satt að segja mjög á óvart ef Samtök atvinnulífsins ætla vegna skötuselsmálsins að segja sig frá samstarfi við stjórnvöld. (VigH: Marglýst því yfir.) Já, það kemur mér á óvart ef þeir ætla bara út af skötuselsmálinu að segja sig frá öllu samstarfi við stjórnvöld sem hefur verið gott á marga lund. Við héldum fund í fyrri viku, mjög góðan fund þar sem farið var yfir allt sviðið. Ég gat þar t.d. ekki fundið annað en að aðilar vinnumarkaðarins væru mjög ánægðir með aðgerðapakkann fyrir heimilin í landinu og þar fórum við yfir stöðuna í atvinnumálum. Stjórnvöld í landinu og aðilar vinnumarkaðarins geta ekki algjörlega látið ein hagsmunasamtök eins og Landssamband íslenskra útvegsmanna fleygja stefnumálum ríkisstjórnarinnar út af borðinu. Hv. þingmaður verður að vita að við höfum gert fleiri en eina og fleiri en tvær tilraunir til að ná sátt við Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnulífsins í þessu sérstaka máli. En þeir segja nei (GÞÞ: En hvað ætlar þú að gera?) við öllu sem við komum fram með í því efni að reyna að ná sátt. Að þessu borði var m.a. Landssamband íslenskra útvegsmanna sest, t.d. út af sjávarútvegsmálunum, til að reyna að ná sátt.

Við ætlum að fara yfir stöðuna ef það kemur virkilega í ljós að þeir ætli að segja sig frá sáttmálanum. Ég vil minna á að það eru fleiri aðilar að þessum sáttmála en Samtök atvinnulífsins. Það er t.d. öll verkalýðshreyfingin og ég veit ekki (Gripið fram í.) til þess að hún ætli að segja sig frá (Forseti hringir.) honum við ríkisstjórnina. Svo veit ég ekki annað en að það sé búið að biðja um utandagskrárumræðu af hálfu flokks hv. þingmanns á morgun og þá tökum við væntanlega yfirferð á þessu máli.