Viðbragðsáætlun og framkvæmd vegna eldgoss

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:37:59 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

viðbragðsáætlun og framkvæmd vegna eldgoss.

[17:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og taka undir orð hennar og þakkir til þeirra sem hafa staðið sig vel. Við ráðherrann vorum saman á fundi á Hvolsvelli bara í seinustu viku og mér varð síðan að orði að það hefði verið ákveðin upplifun að sjá allt það sem rætt var á þeim fundi verða að veruleika í beinni útsendingu í sjónvarpinu þarna á laugardagskvöldið. Það er því rétt sem sagt hefur verið að þarna hefur verið æft og undirbúið af mikill fagmennsku og metnaði.

En það er óvissan sem er fram undan og nú heyrir maður að vatn hafi aukist í Krossá, maður heyrir sögusagnir um að sprungan sé að stækka en það hefur ekki verið staðfest. Veður eru slæm á þessum stað núna þannig að ég ætlaði að freista þess að athuga hvort hæstv. ráðherra hefði einhverjar betri upplýsingar en þær sem maður getur fengið í fjölmiðlum. Ég heiti henni stuðningi ef það þarf að greiða fyrir einhverjum slíkum málum hér á þinginu.