Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:46:51 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[17:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum nýbúin að greiða atkvæði um að fella úr gildi leyfi til þess að nýta svokallaða undanþáguheimild fyrir nektarsýningum, en núna erum við að greiða atkvæði um hvenær þessi lög eiga að taka gildi. Mig langaði sérstaklega að koma því á framfæri hér að þetta mál var til umræðu á 136. þingi og líka á 137. þingi. Og nú er þetta í þriðja skipti til umræðu á 138. þingi þannig að það er nokkuð langur aðdragandi að þessu máli. Þrátt fyrir þennan langa aðdraganda ákvað allsherjarnefnd að leggja til enn meiri nærgætni þannig að í stað þess að lögin taki gildi fyrirvaralaust er hér lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2010. Hér er veittur rúmur tími fyrir þessa staði til að undirbúa þessa breytingu og er farið fram af nokkuð mikilli nærgætni, en ég styð að það verði gert og segi já.