Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:55:15 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:55]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé stigið skref til að taka upp nýja aðferð við úthlutun aflaheimilda án þess þó að hróflað sé við því sáttaferli sem nú er við lýði um framtíðarskipan kerfisins. Ég tel eðlilegt að héðan í frá verði sami háttur hafður á við úthlutun nýrra aflaheimilda eða umframaflaheimilda, t.d. í makríl, eða ef ákveðið verður að auka við þorskkvóta, þ.e. að úthlutað verði gegn gjaldi í sjóði samfélagsins þaðan sem fjármunum verði varið til atvinnuuppbyggingar og annarra samfélagslegra verkefna. Fiskveiðiauðlindin er og á að vera sameign íslensku þjóðarinnar en ekki séreign fárra útvalinna. Það er ekki seinna vænna að ríkisstjórn jöfnuðar og félagshyggju stígi marktæk skref í átt til þess að koma hér á eðlilegum aðferðum við úthlutun samfélagslegra (Forseti hringir.) verðmæta á borð við fiskveiðiheimildirnar.