Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:03:53 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dapurleg stund sem við upplifum hérna núna. Hún felst í því að við erum að fara að afgreiða mál sem svokallað skötuselsákvæði er í, reyndar eitt af átta atriðum í frumvarpinu.

Ég upplifi þetta þannig að einungis örfáir stjórnarþingmenn með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í broddi fylkingar vilja spilla þessari samstöðu. Það eru miklu fleiri hv. stjórnarþingmenn sem vilja ná eðlilegri lausn í þessu máli. Því miður er það svo dapurlegt að við upplifum það hér enn eina ferðina að láta örfáa einstaklinga etja okkur út á foraðið sem við viljum ekki fara út á. Því miður, virðulegi forseti, er þetta staðreyndin.

Við sýndum áðan samstöðu þegar við samþykktum frumvarp um að setja lög á flugvirkja en síðan kemur þetta. Að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli setja fram frumvarp (Forseti hringir.) sem slær á hans eigin sáttarhönd segir allt um hugmyndaflugið hans.