Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:05:09 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og sagði að við værum komin með nýtt fiskveiðistjórnarkerfi. Aðrir hv. stjórnarþingmenn hafa reynt að gera lítið úr þessu en tónninn var hér algjörlega sleginn. Í þessu frumvarpi, jafnkaldhæðnislegt og það er, er gert ráð fyrir því að menn fari 80% umfram vísindalega ráðgjöf. Það er atlaga að lífríkinu.

Hér koma stjórnarliðar fram með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar og segja að þessi stöðugleikasáttmáli skipti engu máli. Samráðið er á forsendum ríkisstjórnarinnar. Aðrir skulu gera það sem ríkisstjórnin segir þeim að gera.

Þetta eru vinnubrögðin, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, þetta er afskaplega dapurleg stund.