Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:06:25 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Íslendingar eru sammála um að almenningur eigi að eiga fiskinn í sjónum og með þessum lögum er verið að tryggja að aflaaukning í skötusel verði í eigu almennings og hann njóti tekna af aflaaukningu þar. Hið sama á auðvitað að gilda í öðrum tegundum fiskjar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hið sama á auðvitað líka að gilda um tegundir og arð af þeim sem eru utan kvóta.

En LÍÚ bregst auðvitað við þessu máli af algerlega fátíðum hroka og hörku með hótunum í garð löggjafans vegna 600 tonna af skötusel og það er sannarlega á þeirra eigin ábyrgð ef þeir grípa til aðgerða vegna lýðræðislegra ákvarðana meiri hluta Alþingis (Gripið fram í: Á ábyrgð ríkisstjórnar.) eftir lýðræðislegar alþingiskosningar í landinu (Forseti hringir.) í samræmi við lýðræðislegan vilja meiri hluta þjóðarinnar.