Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:14:42 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er að koma til lokaafgreiðslu frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ýmis atriði í þessu frumvarpi eru til að styrkja grunn þessarar atvinnugreinar, m.a. að takmarka flutning á milli ára til að fá meiri afla inn á þetta ár.

Varðandi það atriði sem hér hefur verið gert að umtalsefni um hreint bráðabirgðaákvæði sem lýtur að skötuselsveiðum er það að segja að það er heimildarákvæði til bráðabirgða sem er veitt samkvæmt lögunum. Ég lýsi því yfir að verði aflaaukning af skötusel, sem alls ekki liggur fyrir, mun ég beita henni af mikilli varfærni þannig að ekki hljótist neinn óbætanlegur skaði af fyrir lífríkið. Ég mun hafa náið samráð við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og setja líka nákvæmar reglur sem tryggja góða umgengni um auðlindina.

Ég legg áherslu á að þetta er bráðabirgðaskammtímaheimildarákvæði. Mörg önnur ákvæði í frumvarpinu (Forseti hringir.) eru einnig mjög til bóta þannig að, frú forseti, ég þakka að lokum formanni og varaformanni hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þeim Atla (Forseti hringir.) Gíslasyni og Ólínu Þorvarðardóttur, fyrir gott starf, sem og nefndinni allri.