Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:22:54 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þannig vaxið að á sínum tíma þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi 13. nóvember sl. var gert ráð fyrir því að hluti af andvirði selds skötuselsafla rynni til byggðaáætlunar. Þegar meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafði íhugað málið í rúmlega tvo mánuði komst meiri hlutinn af þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að hverfa frá þessari byggðaáherslu og verja þessum peningum til sjóðsins Átak til atvinnusköpunar án þess að það væri nánar útskýrt.

Ég spurði hæstv. ráðherra nánar um þessi mál 2. febrúar sl. og þá sagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál [þ.e. hæstv. iðnaðarráðherra] komi sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt …“ Með öðrum orðum er hæstv. ráðherra að segja okkur frá því að hæstv. iðnaðarráðherra hafi hrammsað til sín þessa fjármuni til að ráðstafa þeim með öðrum hætti heldur en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði gert ráð fyrir. Ég er á móti því og tel þess vegna mikilvægt að þessi snefill af byggðaáherslu sem fram kom í þessu frumvarpi fái að halda sér.