Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:26:21 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Með þessari breytingartillögu er meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að freista þess að skera af einn skafankann af skötuselsanga þessa frumvarps og það er sjálfsagt að styðja við þá viðleitni. Það vekur hins vegar athygli á því að nefndin og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er kominn á mikinn flótta í þessu skötuselsmáli öllu saman. Upphaflega var lagt af stað með það að auka aflaheimildir í skötusel um 80%. Í 2. umr. málsins var það komið niður í 1.500 tonn og nú var greint frá því, sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði raunar tilkynnt í fréttatilkynningu 16. mars, að búið væri að telja þetta niður, eins og í gömlu niðurtalningarleiðinni, ofan í 600 tonn. Ef 4. umr. væri í málinu spái ég að það yrði komið niður í núll.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt að sjá flóttann sem brostinn er á í þessu liði og hann birtist líka í því að nú loksins við 3. umr. er a.m.k. gerð lítil viðleitni til þess að taka burt einn vitlausan skafanka í málinu.