Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:34:15 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er dæmigert mál þar sem ófriðurinn er kosinn þó að friður sé í boði. Það liggur fyrir að þau mál sem hafa verið hvað mest umdeild er hægt að leysa með allt öðrum og friðvænlegri hætti. Það hafa m.a. nánast öll hagsmunasamtök í sjávarútvegi bent á, nú síðast Landssamband smábátaeigenda.

Við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lögðum fram breytingartillögu í þá veru. Illu heilli hafnaði meiri hluti Alþingis því. Þetta umdeilda atriði varðandi skötuselinn hefur þróast með ákaflega sérkennilegum hætti. Upphaflega var lagt af stað með 2.000 tonna heimild en nú er búið að lækka hana. Hæstv. ráðherra talaði mjög um að þetta væri bráðabirgðaákvæði og ekki fordæmisgefandi. Nú hafa félagar hans í Samfylkingunni hins vegar talað allt öðruvísi. (Forseti hringir.) Þeir líta þannig á að um sé að ræða prinsippmál og hér sé verið að gefa nýjan tón.

Í ljósi alls þessa er ástæða til að hafna þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Þetta er hættulegt frumvarp, þetta er vont frumvarp og það dregur úr hagkvæmni í sjávarútvegi. Þetta vinnur gegn hagsmunum þjóðarinnar.