Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 18:44:31 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:44]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er skelfilega vanhugsað og vitlaust að skvetta úr koppi ríkisstjórnarinnar framan í andlit 20 manna sáttanefndar sem átti auðvitað að véla um þetta mál og enginn ræður. Það er skelfilega vanhugsað og dónaskapur við allt sem heitir eðlilegur framgangur málsins þegar menn vilja ná sáttum. Þannig hefur þessu kerfi verið riðlað. Þetta er jafn vitlaust, virðulegi forseti, og þegar hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra fóru að skipta sér af Icesave-samningunum á lokastigi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hvaða vinnubrögð eru þetta? Hvaða Afríkuvinnubrögð eru þetta? Þetta eru hlutir sem eiga ekki að viðgangast í okkar samfélagi. Hér á að vera meiri virðing og meiri metnaður en svo. Þetta mál er til óþurftar. Það vekur tortryggni, óöryggi, virðingarleysi og það er valdbeiting í máli sem skiptir öllu máli að ná sem mestri sátt um.