Notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 19:12:55 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[19:12]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun sem mér finnst afar framsækin. Ég þakka flutningsmönnum kærlega fyrir að leggja hana fram því að hér er um afar þarft mál að ræða. Þetta er í raun mannréttindamál þar sem fólki sem fætt er með fötlun er gert kleift að lifa sjálfstæðu lífi á sínum eigin forsendum og sinnar fjölskyldu, sem ég held að skipti afar miklu máli. Þetta er kannski ekki nýtt mál á Íslandi. Við vitum að það eru nokkrir einstaklingar sem notfæra sér þessa notendastýrðu persónulegu aðstoð eða þjónustu nú þegar en fyrir því hefur þurft að berjast með kjafti og klóm og það er afar gott að hér er komin fram tillaga um að þetta verði eðlileg þjónusta. Vonandi nær þessi tillaga því markmiði sínu að ráðherra leggi fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþinginu.

Þessi hugmyndafræði er alþjóðleg og er mjög einföld, það skiptir afar miklu máli að fólk með fötlun er eins og fólk með gleraugu eða fólk með freknur, það á rétt á því að lifa sínu sjálfstæða lífi. En vegna hamlana í líkama sínum eða vegna annarra annmarka þarf það meiri aðstoð við að lifa eðlilegu lífi. Hér er hugmyndafræðin sú að þessir einstaklingar fái tækifæri til að fá þá aðstoð sem þeir þurfa sem ryðja hömlununum í burt. Í raun og veru er þetta sjálfsögð hugmyndafræði en hún hefur kannski ekki verið nógu meðvituð í samfélagi okkar.

Við erum aðilar að bæði samningi Sameinuðu þjóðanna, Salamanca-yfirlýsingunni og fleiri alþjóðlegum yfirlýsingum eða samningum sem gera okkur skylt að sinna fólki með fötlun eins vel og öðrum þjóðfélagsþegnum. Ég held að þetta sé afar þarft mál og kannski þarfara en maður gerir sér grein fyrir. Vonandi mun þessi hugmyndafræði hafa áhrif allt niður í líf barns og allt upp til fullorðinsára, þessi möguleiki að sjá fram á líf þar sem maður býr ekki á stofnun heldur lifir maður eðlilegu lífi á sínum grunni, hvort sem það er á sínu eigin heimili eða einhvers konar fjölbýli með ákveðinni þjónustu. Það mun breyta öllum hugsanagangi til lífsréttinda og mannréttinda fólks sem fætt er með einhvers konar fötlun.

Hér hefur framsögumaður, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, rakið hvernig gott er að gera þetta. Ég efast ekki um að í raun og veru verður hagræðing af þessu til lengri tíma. Hún kemur kannski ekki fram alveg strax en hún mun örugglega koma fram þegar fram líða stundir.

Á tímum þar sem 15.000 manns eru án atvinnu má líka sjá fyrir sér að talsverður fjöldi manns, hér er jafnvel talað um upp undir 1.500 manns — ef allir Íslendingar með fötlun færu inn í þessa gerð af þjónustu gætu um 1.500 manns fengið atvinnu og það er ekki lítill hópur. Auðvitað þyrfti að gæta þess að hver einstaklingur fengi metið þá þörf sem hann hefði fyrir þjónustu og eins þarf að vera ákveðið eftirlit með gæðum þjónustunnar sem ég held að skipti mjög miklu máli. Kannski förum við aðeins að hugsa líka fyrir þjálfun og menntun þessa aðstoðarfólks. Það þyrfti kannski að fá ákveðna þjálfun og menntun því að maður hefur heyrt að fólki með fötlun finnst stundum aðstoðarfólk sitt hugsa of mikið og taka of mikið af ákvörðunum fyrir það — og helst að þessir einstaklingar með fötlun, sem hafa til þess burði, mundu jafnvel verða aðalkennararnir í slíku námi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Mig langar samt aðeins í sambandi við það sem hér er sagt, að nú sé áætluð tilfærsla málaflokksins yfir til sveitarfélaganna, og ég held að þetta sé mjög spennandi punktur til að vinna hratt og örugglega að útfærslu þessarar þjónustu. Það skiptir líka mjög miklu máli að við hugsum það þannig að sveitarfélögunum sé tryggt fjármagn í því ferli sem fram undan er við samninga milli ríkis og sveitarfélag um yfirfærslu þessa stóra málaflokks. Ég held því að það væri mjög spennandi að reyna að koma þessari þjónustu eða einhverjum ramma hennar á fyrir þennan tíma, sem sagt fyrir 1. janúar 2011.

Ég legg áherslu á að þetta er afar þarft og mikilvægt mál og mun að sjálfsögðu taka þátt í að styðja það.