Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 19:35:04 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[19:35]
Horfa

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ágætar fyrirspurnir og ágæt andsvör. Það er margt að skoða í þessu máli og fyrir það fyrsta styð ég eindregið að við gerum persónukjörsfrumvarpið að lögum. Ég tel að það sé best að kjósandinn geti valið þvert á lista, hann velji að sjálfsögðu einn lista í lokin og veiti honum þar með atkvæði sitt en geti komið að því að velja á hina listana líka.

Ég sagði áðan að það yrði ekki einfalt eða fyrirsjáanlegt hvernig flokkarnir mundu tryggja nákvæmlega að þeirra framboðslistar spegluðu landið allt. Það gætu þeir að sjálfsögðu gert ef þeir stilltu upp sínum landslista en ef hitt verður að lögum ber flokkunum að viðhafa persónukjör og þar geta þeir haft áhrif á með ýmsum öðrum hætti, eins og hvernig þeir halda frambjóðendum fram. Væntanlega yrðu flokkarnir alltaf með forval fyrir það hverjir væru svo á persónukjörslistanum og annað. Það væri a.m.k. mjög óhyggilegt af þeim að reyna ekki að tryggja eins og kostur væri að listarnir spegluðu landið eins bærilega og hugsast getur. Þetta yrði sjálfsagt að skoða í nefndinni.

Hvað varðar stjórnlagaþingið þá verður það vonandi haldið og helst á þessu ári. Vonandi gengur það fram eins og kostur er. Svo sannarlega vona ég að það leggi einnig til að landið verði gert að einu kjördæmi en um það er ekki hægt að spá. Það er einfaldlega ekki búið að klára það mál. Það hefur ekki verið afgreitt út úr nefndinni þannig að við vitum ekki hvernig það verður, með hvaða hætti, hvenær verður kosið til þess og um blæbrigðin og útfærsluna á því. Það er alveg sérmál. Ef það ráðlegði þinginu þetta held ég að það mundi styrkja mjög þetta mál. Ég taldi þó ekki ástæðu til að bíða eftir því enda verður það vonandi samhljóða en þetta verður þá líka innlegg til þeirrar umræðu þegar hún fer fram.