Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 19:39:31 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[19:39]
Horfa

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að einmenningskjördæmafyrirkomulagið sé ekki heppilegt af því að þegar inn á þing er komið er það er svo langt frá því að spegla hlutfall atkvæða sem greidd eru á landsvísu, þótt erfitt sé að bera þetta nákvæmlega saman. Fólk greiðir sjálfsagt atkvæði að einhverju leyti með öðrum hætti þegar komið er í einmenningskjördæmi. Besta dæmið er frá Bretlandi frá því fyrir að verða fimm árum síðan þegar Verkamannaflokkurinn fékk rétt um 36% atkvæða á landsvísu en hreinan meiri hluta í þinginu. Átta árum áður fékk sami flokkur 44% atkvæða á landsvísu en ætli hann hafi ekki fengið upp undir 64% af þingmönnunum, þannig að það getur orðið gríðarleg skekkja þarna á milli. Þess vegna held ég að það fyrirkomulag spegli ekki nægilega vel, og jafnvel langt frá því, vilja kjósenda og val þeirra á fulltrúum inn á samkunduna sem fer með löggjafarvaldið. Ég held að einn maður, eitt atkvæði þar sem hlutfall þingmanna er nákvæmlega eins og atkvæðin falla á landsvísu sé besta og heppilegasta fyrirkomulagið.

Hvað varðar kosningabaráttuna, flokksræðið og hvernig þingmenn standa nálægt því held ég að það muni ekki breytast mikið frá því sem nú er og jafnvel bara batna því þá tölum við öll fyrir hagsmunum allra, hvar sem þeir búa. Í dag er þetta í raun og veru þannig að t.d. kjördæmið sem ég bý í, Suðurkjördæmi, er nánast hálft Ísland landfræðilega, það nær oddanna á milli. Þar er voðalega erfitt fyrir t.d. íbúana úr fámennustu byggðarlögunum, sem eiga ekki bakland og tengingar inn í hin þéttbýlli, að sigra prófkjör og koma sér þar í fremstu raðir. Það vandamál er því alls ekki síður til staðar þar. Þetta eru allt vangaveltur sem mætti hafa langt mál um.