Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 11:24:32 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ein nefnd þingsins sem er bundin algjörum trúnaði, það er utanríkismálanefnd og það hefur gengið. Það hefur ekki lekið neitt þar út um eitthvað sem henni er treyst fyrir.

Ég legg til að hv. allsherjarnefnd, sem þetta mál fellur undir, skoði það að hún sjálf fái svipaða heimild til að beita leynd á mál og að hægt sé að vísa málum til hennar til skoðunar þannig að hún taki að sér að skoða það sem menn telja vera brotalamir í kerfinu. Það kemur þá í ljós hvort svo er eða ekki.

Ef það hefði verið til á þessum tíma er ég alveg með það á tæru að þau börn sem komu frá þessu heimili, Breiðavík, og höfðu einhverja sögu að segja og foreldrar barnanna, þeir sem trúðu þeim, hefðu getað snúið sér til viðkomandi nefndar, allsherjarnefndar. Hún hefði þá bara kannað málið og þá hefði hugsanlega tekist að komst fyrir orsök vandans.