Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 11:28:24 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. þingmaður hreyfir er auðvitað mjög mikilvægt. Það þurfa að vera mjög skýr skil á milli framkvæmda á þjónustunni og síðan eftirlits með stofnunum og að því hefur verið unnið með mjög markvissum hætti. Barnaverndarnefndum hefur líka verið fækkað, þær stækkaðar, fagfólki fjölgað á þessum stofnunum og barnaverndarlögin hafa verið í sífelldri endurskoðun. Ég er alveg viss um það og veit það reyndar að þetta viðkvæma, erfiða mál sem kom upp í kringum Breiðavíkurheimilið hefur orðið til þess að stjórnvöld eru betur á verði, eftirlitsaðilar allir eru betur á verði gagnvart rekstri vistheimila o.s.frv. Einnig hefur orðið nokkur stefnubreyting í því að hverfa frá stofnanavist á vistheimilum og þróunin er í þá átt að styrkja meira einstaklingsúrræði að því er varðar börn sem lenda í erfiðleikum og þurfa á aðstoð að halda. Það er einmitt von á frumvarpi inn í þingið sem fer í þessa átt, að styrkja betur þá umgjörð að hverfa frá stofnanavistun og styrkja frekar einstaklingsúrræði.