Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 11:52:41 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:52]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Takk, ágæta samstarfsfólk á Alþingi Íslendinga. Takk fyrir einstaklega málefnalega, góða og samstillta umræðu sem farið hefur fram hér um þetta ljóta, alvarlega og stóra mál sem við ræðum hér, sem er frumvarp til laga um sanngirnisbætur fyrir þá drengi sem urðu fyrir órétti af hálfu samfélagsins á sínum tíma.

Ég verð að segja að oft og tíðum þegar umfjöllunin hófst í fjölmiðlum og fórnarlömb stigu fram og sögðu sögu sína varð mér hugsað til baka til þess tíma þegar ég var að alast upp. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp á ástríku heimili og þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að vera send á stofnun eða að fjölskylda mín mundi leysast upp eða að eitthvað mundi gerast í minni fjölskyldu sem yrði þess valdandi að ég yrði send á stofnun sem þessir drengir og í mörgum tilfellum stúlkur voru send á.

Ég vil sérstaklega þakka tveimur hv. þingmönnum fyrir ræður þeirra hér í dag, annars vegar hv. þm. Þór Saari, sem ég vil hrósa fyrir mjög góða ræðu. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið hér úr þessum ræðustól þegar menn eru stjórnarandstæðingar að þeir stígi hér fram og þakki stjórninni, stjórnarliðum eða hæstv. forsætisráðherra með jafnafgerandi hætti og hv. þm. Þór Saari gerði. Ég tel að það hafi verið stórmannlegt af honum.

Ég vil líka þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir þann kjark sem hann sýndi hér með því að halda þá ræðu sem hann hélt og lýsa því atlæti sem hann varð fyrir í æsku. Það er ekki oft sem ég hef setið hér í þessum sal og vöknað um augu þegar þingmenn hafa talað.

Ég þakka öllu mínu samstarfsfólki fyrir þessa umræðu vegna þess að mér finnst hún líka sýna að þegar mál eins og þetta kemur til kasta Alþingis skiptir engu máli hvar í flokki við stöndum. Það skiptir engu máli hvaðan við komum eða hver við erum. Þetta er réttlætismál, þetta er mannréttindamál og framlagning þessa frumvarps hér í dag er mikill áfangi. Það eru líka mikil tíðindi hversu mikil samstaða hér er milli allra um að afgreiða þetta mál.

Þetta frumvarp mun fara, eins og komið hefur fram, til allsherjarnefndar þar sem ég er formaður og munum við fjalla um málið. Mig langar, frú forseti, aðeins til þess að koma inn á eitt efnisatriði sem hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á í andsvari við hæstv. forsætisráðherra þar sem hann velti því upp hvort opna ætti enn frekar en er í dag aðgang að skjölum barnaverndaryfirvalda.

Það er kannski eðlilegt að þess konar spurningar séu settar fram þegar við erum með svona sögu, svona fortíð og svona mál í höndunum eins og t.d. Breiðavíkurmálið. Ég verð hins vegar að segja að ég er aðeins hugsi yfir þessari hugmynd hv. þingmanns og ég tel að við í allsherjarnefndinni eigum að skoða það mjög vandlega, þetta eru gríðarlega viðkvæm mál. Ég þekki það frá störfum mínum hjá Reykjavíkurborg að þau mál sem komu inn á borð til mín þá sem sneru að barnaverndarmálum voru einhver þau erfiðustu og viðkvæmustu sem ég þurfti að glíma við. Það var ekki sjálfsagt mál að kjörnir fulltrúar þar ættu aðgang að öllum skjölum. Ég velti því upp vegna þess að hv. þingmaður kom með þá hugmynd að allsherjarnefnd, sem er ein af fastanefndum þingsins, ætti að hafa sama aðgang að viðkvæmum barnaverndarupplýsingum og skjölum og utanríkismálanefnd hefur varðandi utanríkismál.

Það er sjálfsagt að skoða þetta. Ég tel mig hins vegar sem starfandi formann allsherjarnefndar hafa afskaplega litlar forsendur til þess að meta mál sem koma inn á borð til mín, hvað þá að gerast einhver úrskurðaraðili eða endanlegt vald um það hvernig málum eigi að ljúka nema ég fái til þess faglega aðstoð og sérfræðinga sem geta farið yfir málin með mér og útskýrt fyrir mér á hvaða grunni ákvarðanir um afgreiðslur einstakra mála eru teknar.

Við skulum skoða það sem hv. þingmaður nefnir. Það þarf að sjálfsögðu að binda þessi mál algjörum trúnaði. Ég hallast á þessu stigi frekar að því, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, að við styrkjum frekar eftirlitsþáttinn og faglegt eftirlit með þeim aðilum sem úrskurða eða úthluta ákveðnum úrræðum. Ég er ekki viss um, hv. þm. Pétur Blöndal, að þó að níu manna þingmannanefnd allsherjarnefndar Alþingis, sem væri bundin trúnaði, eigi hún að hafa eitthvert úrskurðarvald eða geta kveðið upp úr um einstaka viðkvæm barnaverndarmál.

Ég vildi, frú forseti, aðeins nefna þetta hér efnislega af því að hv. þingmaður kom inn á þetta en þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps og þá óvenjumálefnalegu, yfirveguðu og góðu umræðu sem farið hefur fram hér á Alþingi í dag.