Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 11:59:44 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti ekki við að hv. allsherjarnefnd hefði eitthvert úrskurðarvald heldur að hún fengi upplýsingar. Það er nefnilega á grundvelli upplýsinga sem menn geta hugsanlega breytt lögum eða sett í gang einhverja rannsókn.

Það sem gerðist með Breiðavíkurheimilið var að það voru engar upplýsingar, þær komu bara ekki fram. Og jafnvel þó að einhver byggi yfir þeim upplýsingum stóð hann bara einn, t.d. foreldri, og gat ekki komið sínum upplýsingum áfram.

Ég er ekki að tala um að allsherjarnefnd fari að setja sig í dómarasæti, við það fæst stjórnkerfið, en ég vil að svona mál komi fram því að ég sé í grunninn ekkert sem kemur í veg fyrir að þetta endurtaki sig, ekkert. Menn tala jú reyndar um að það sé mikið meira um fagfólk í þessum barnaverndarmálum í dag, en hefur ekki mannkynssagan sagt okkur að fagfólk og sérfræðingar eru ekkert síður siðblint fólk en annað? Það er engin trygging fyrir því að fagfólk sé einhvern veginn mannúðlegra.

Til þess að hindra það að svona endurtaki sig — ég er alls ekki að gefa í skyn að það sé eitthvað í gangi — geti aðilar með rökstuddum hætti snúið sér til nefndarinnar með upplýsingar sem þeir hafa og þá getur nefndin sest niður og kannað hvort einhver ástæða sé til að breyta t.d. lögum eða eftirlitsþáttum.