Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:13:33 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta þingmál er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að ljúka Breiðavíkurkaflanum í Íslandssögunni vegna þess að Breiðavík kemur okkur öllum við.

Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa verkstýrt þessu máli inn í þann farveg sem það er í nú og virðist vera í bærilegri sátt við Breiðavíkurdrengi. Þetta mál er stórt vegna þess að það snýst ekki bara um fjármuni, það snýst um félagslega þætti og siðferðilega. Engir peningar fá bætt þann miska sem margir einstaklingar hafa orðið fyrir, en ég held líka að við eigum að gæta okkar í þessari umræðu og vera spör á alhæfingarnar. Þarna komu margir einstaklingar við sögu, bæði ungmennin sem dvöldu i Breiðavík og líka þeir sem þar störfuðu. Við skulum gæta okkar að gerast ekki of alhæfingargjörn í því efni.

Ég sagði að engir peningar fengju bætt þann miska sem margir hafa orðið fyrir en ég tel það mikilvægt að ríkisstjórnin skuli hafa reynt að gera það sem í hennar valdi stendur til að bæta þann þáttinn og í mínum huga er það mikilvægt að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli hafa stigið fram og beðist afsökunar fyrir hönd okkar allra.