Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:31:18 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem er að finna á þskj. 861, 495. mál þingsins, um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna. Þetta mál hefur að nokkru verið rætt hér áður á þinginu í framhaldi og í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur síðastliðið haust, fyrirspurn um rétt einhleypra kvenna til að fá gjafaegg. Í svarinu kom fram að í undirbúningi væri í heilbrigðisráðuneytinu að breyta lögum þess efnis og að fyrirhugað væri að það yrði lagt fram á vorþingi. Nú er sem sagt, frú forseti, komið að því.

Með frumvarpinu er lagt til að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör, þar sem frjósemi beggja er skert.

Lagt er til að viðeigandi breytingar verði gerðar á ákvæðum laganna sem fjalla um geymslu fósturvísa, þannig að þau taki til geymslu fósturvísa án tillits til þess hvort notaðar hafi verið kynfrumur parsins, konunnar eða gjafakynfrumur.

Samkvæmt núgildandi lögum er eingöngu heimilt að nota gjafakynfrumur við tæknifrjóvgun ef frjósemi er skert, ef um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafafrumna. Sé um einhleypa konu að ræða, eða konu í staðfestri eða óvígðri sambúð með annarri konu, er þó ætíð heimilt að nota gjafasæði. Gjöf fósturvísa er hins vegar óheimil samkvæmt lögunum og ekki er gert ráð fyrir að því verði breytt hér og nú.

Um það ákvæði segir m.a. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996, að þetta þýði — að gjöf fósturvísa sé óheimil og heimilt sé að nota gjafasæði — að nota verði kynfrumur frá karlinum eða konunni. Að óbreyttum lögum er því eingöngu heimilt að nota gjafaeggfrumu við glasafrjóvgun ef sæði kemur frá verðandi föður (maka).

Ég vil í þessu sambandi minna á að á dagskrá hér síðar í dag er frumvarp dómsmálaráðherra á þskj. 836 þar sem gerð er tillaga til lagabreytinga í því skyni að afmá þann mun sem felst í misvísandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur það markmið að ein hjúskaparlög gildi fyrir alla og verði lögfest fyrir alla. Ég hvet til þess að þegar nefnd fjallar um það frumvarp sem hér er mælt fyrir verði horft til frumvarps hæstv. dómsmálaráðherra sem ég vænti að verði einnig að lögum og tillögunum til lagabreytingar hér breytt í samræmi við það sem þar kemur fram.

Frú forseti. Að óbreyttum lögum, eins og ég sagði, er eingöngu heimilt að nota gjafaeggfrumu við glasafrjóvgun ef sæði kemur frá verðandi föður (maka). Þetta kemur sérlega illa við einhleypar konur og konur í sambúð með annarri konu þar sem í gildandi lögum eru gerðar kröfur um að nota verði kynfrumur frá karlinum eða konunni við tæknifrjóvgun. Gert er ráð fyrir að þær konur sem þurfa bæði á gjafaeggi og gjafasæði að halda við glasafrjóvgun séu einkum einhleypar konur sem búa við skerta frjósemi vegna aldurs eða af öðrum ástæðum, ekki síst vegna krabbameinsmeðferðar. Það er algengt, eins og menn þekkja, að konur gangist undir tæknifrjóvgunarmeðferð á seinni hluta frjósemisskeiðs og oftar en ekki bregst tæknifrjóvgun vegna þess að frjósemi er skert vegna aldurs.

Hæstv. forseti. Ég hef í ræðu minni gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Hér er um að ræða mikilvæga réttarbót fyrir einstaklinga sem búa við skerta frjósemi og ég tel mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr. Eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis verður ekki séð að samþykkt þessa frumvarps hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.