Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:39:17 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er svolítið gaman að lesa þetta frumvarp. Þó að það sé lítið er það svo tæknilegt, maður þarf alltaf að vera að setja sig í þau spor hver á hvaða egg og hvaða sæði o.s.frv., þannig að maður þarf virkilega að pæla í þessum knappa texta.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, að ef lögunum er ekki breytt, það er kannski best að hugsa þetta þannig, má bara nota gjafaeggfrumu við glasafrjóvgun ef sæðið kemur frá verðandi föður. Þetta er nú kannski kjarninn í þessu máli. Það er þá ekki heimilt að nota gjafaeggið við glasafrjóvgun einhleyprar konu, konu í sambúð með annarri konu eða konu þar sem ekki er unnt að nota sæði frá eiginmanni eða sambýlismanni. Þetta er sem sagt kjarninn í þessu máli.

Í greinargerðinni kemur fram að í gildi sé samningur við Art Medica um greiðsluþátttöku ríkisins í tilteknum fjölda tæknifrjóvgana. Það er ekki gert ráð fyrir því að það þurfi að semja á ný við þetta fyrirtæki, þar sem um örfá tilvik á ári er að ræða. Það kom mér á óvart að þetta séu samt örfá tilvik á ári, ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, ég hélt að þetta væri svo sjaldgæft. Þetta er greinilega þó það oft að það eru nokkur tilvik á ári sem þessi staða kemur upp.

Ég vil í heildina lýsa mig jákvæða gagnvart frumvarpinu. Ég er bæði mjög frjálslynd og tæknisinnuð. Ég tel að nýta eigi tæknina þegar það er hægt ef ekki eru verulegir siðferðislegir annmarkar á því. Þannig að ég tel að við eigum að stíga þetta skref, að það sé jákvætt, og mun beita mér á þann hátt í hv. heilbrigðisnefnd.