Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:41:23 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:41]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil, líkt og aðrir þingmenn sem hafa talað um þetta mál, fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Ég tel það rökrétt framhald á ákveðinni þróun sem hófst hér á Íslandi, að ég hygg, fyrir tæplega 20 árum. Það hljómar langur tími þegar maður segir það, en í raun og veru er þetta mjög stuttur tími frá því glasafrjóvganir hófust fyrst á Landspítalanum. En ég hygg að það hafi verið upp úr 2003 eða 2004 sem þeir læknar sem sinntu glasafrjóvgun á Landspítalanum stofnuðu fyrirtækið Art Medica og gerðu samning við heilbrigðisyfirvöld um þjónustu á sviði ófrjósemi. Fyrirtækið Art Medica hefur á að skipa gríðarlega reynslumiklu fólki, þeir læknar sem þar starfa hafa starfað lengi í þessum geira. Fyrirtækið getur státað af mjög góðri tölfræði varðandi vel heppnaðar glasafrjóvganir, svo góðri tölfræði að samkvæmt mínum upplýsingum koma æ fleiri útlendingar hingað til Íslands til að nýta sér þjónustu Art Medica vegna þess að sú þjónusta þykir á heimsmælikvarða. Oftar en ekki verða til börn úr þeim tæknifrjóvgunum sem gerðar eru á Art Medica. Þannig að það er ekkert nema gott um það að segja. Frumvarpið er, eins og ég segi, rökrétt framhald af því sem hefur verið að gerast hér á undanförnum árum.

Það eru tvö atriði, frú forseti, sem ég hef aðeins verið að velta fyrir mér og langaði að reifa hér og fá kannski skýringar hæstv. ráðherra á. Í dag er það þannig, ef ég veit rétt, að í þeim tilfellum þar sem par eða kona þarf að fá gjafaegg er það oft fengið innan fjölskyldu eða úr kunningjahópi og það er fengið hér innan lands og engar hömlur á því. Það er enginn sæðisbanki á Íslandi þannig að þeir sem þurfa að sækja sér sæði þurfa að fara til útlanda. Það þarf að kaupa það sæði og það þarf iðulega að gangast undir þessar tæknifrjóvganir eða glasafrjóvganir erlendis.

Þau rök sem hafa heyrst gegn því að koma upp sæðisbanka á Íslandi eru fyrst og fremst fámennið, að við séum allt of fá til þess að það sé siðferðislega réttlætanlegt að koma hér upp sæðisbanka.

Vegna þess sem hér er nefnt um kostnaðinn fyrir ríkið varðandi samninginn við Art Medica er talað um það í greinargerð að ekki verði um aukinn kostnað að ræða vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir því að ríkið þurfi að auka við samninginn eða greiða hærri upphæðir. Það kemur auðvitað til af þessu sem ég var að nefna, að í þessum tilfellum — þar sem viðkomandi par þarf bæði að fá gjafaegg og gjafasæði — þarf viðkomandi að fara til útlanda vegna þess að það er ekki hægt að fá gjafasæði hér á Íslandi.

Mig langaði til þess að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort þetta hefði eitthvað komið til tals því að hér er um gríðarlegan kostnað að ræða fyrir þau pör og þær einhleypu konur, svo að þær séu nú nefndar hér, sem gangast undir þetta.

Ég segi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, ég þurfti að lesa þetta stutta frumvarp nokkrum sinnum til þess að skilja það, þó það sé ekki nema ein blaðsíða, því að þetta er dálítið tyrfinn texti. Ég hnýt um það í athugasemdunum við frumvarpið að þar segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna, um að gjöf fósturvísa sé bönnuð, er hins vegar óbreytt.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir það að ef ég og maðurinn minn ættum fósturvísi í frysti hjá Art Medica, sem við hefðum ekki áhuga á að nýta okkur, eða vildum ekki nýta okkur, væri okkur óheimilt að ráðstafa þeim fósturvísum til annars pars. Ég hnýt um þetta og mig langaði til að fá álit hæstv. ráðherra varðandi þetta atriði. Ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að menn gangi enn lengra fyrst menn eru bæði búnir að leyfa gjafasæði og gjafaegg því að þegar gjafasæði og gjafaegg koma saman verður til fósturvísir. Það er því enginn eðlismunur á þessu, þetta er bara stigsmunur.

Auðvitað átta ég mig á þeim álitaefnum sem kunna að koma upp, t.d. varðandi það hvort menn færu að versla með eitthvað slíkt. Ég held að við ættum að geta sett löggjöf hér á Íslandi sem kemur í veg fyrir það. Ég þekki það frá Art Medica að það er mjög mikill fjöldi af fósturvísum sem eru geymdir þar, stundum árum saman, án þess að þeir séu notaðir. Eftir tiltekinn árafjölda er þessum fósturvísum fleygt. Þeim er fleygt eða þeim er fargað ef eigendur fósturvísanna hafa ekki viljað nýta sér þá. Ég spyr því: Af hverju eigum við ekki bara að ganga alla leið og leyfa líka ráðstöfun þessara fósturvísa með tilteknum reglum og tilteknum ramma, á sama hátt og við erum að leyfa þetta með gjafaegg og gjafasæði?

Að öðru leyti er ég mjög ánægð með að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Ég tel það vera rökrétt framhald af þeirri þróun sem hófst hér á Íslandi fyrir allmörgum árum.