Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:51:18 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég get nú eiginlega ekki stillt mig um að sakna karlmannanna í hópi þingmanna við þessa umræðu en ekki segi ég það þó til þess að lasta eða gera athugasemdir við það sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum.

Ég þakka kærlega fyrir þær góðu undirtektir sem þetta litla frumvarp fær hér. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að kveikjan að því er fyrirspurn hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur frá því fyrr í vetur. Í framhaldi af henni var lagst nokkuð yfir það í heilbrigðisráðuneytinu hvernig unnt yrði að koma þessari mjög svo sjálfsögðu réttarbót á.

Þessi lög eru frá 29. maí 1996. Þetta er í fjórða sinn sem talað er um og lagt er til að þeim verði breytt, en breytingarnar eru tiltölulega nýlegar. Þær eru frá 2006 og tvisvar sinnum voru gerðar breytingar á árinu 2007. Allt hefur þetta verið frekar í átt til frjálsræðis og tekur mið af tækniframförum og samfélagslegum breytingum eins og hér hefur verið bent á.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir nefndi hversu náin umræðan um að nota gjafaegg er umræðunni um staðgöngumæðrun. Ég nota þetta tækifæri, frú forseti, til að segja frá því að á morgun, á föstudag klukkan 13, verður opið málþing á vegum heilbrigðisráðuneytisins um staðgöngumæðrun. Þar verður kynnt skýrsla sem unnin var á vegum ráðuneytisins um álitaefni sem uppi eru varðandi staðgöngumæðrun. Þau eru af ýmsum toga. Þau eru siðfræðileg og þau eru lagaleg. Þar verða frummælendur úr ýmsum áttum, m.a. hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem hefur tekið þetta mál ítrekað upp hér í þinginu.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagðist undrandi á því að um „nokkurt“ dæmi væri að ræða. Ég tel að ég fari með rétt mál þegar ég segi að menn hafa talið í því sambandi að það séu einhvers staðar á bilinu einn til þrír á ári, en þetta vita menn auðvitað ekki svo gjörla. Eins og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi, hefur Art Medica, sem hefur á undanförnum árum annast þessa þjónustu, náð gríðarlega góðum árangri og þangað koma æ fleiri útlend pör til þess að fara í tæknifrjóvgunarmeðferð hjá fyrirtækinu.

Ríkið kaupir ákveðinn fjölda meðferða af fyrirtækinu, svo sem tæknifrjóvganir, og athygli okkar í ráðuneytinu hefur verið vakin á því að biðlistar á vegum Art Medica hafa lengst fyrir íslensk pör sem þangað leita. Spurningin sem varpað var til ráðuneytisins var hvort verið væri að þjóna útlendingum umfram Íslendinga. Þetta er atriði sem við hljótum að kanna því að þeir sem ríkið borgar fyrir og þeir sem borga úr eigin vasa, sem menn gera eftir fimm meðferðir eða fleiri, ef ég man rétt, hljóta að eiga nokkurn forgang vegna þess fjölda meðferða sem keyptur er af fyrirtækinu. Ég mun láta kanna það mál.

Það er rétt sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði, það er ekki sæðisbanki á Íslandi. Það er fámennið sem veldur. Ég hef ekki þær upplýsingar við höndina að ég geti svarað því hvernig samningum um sæðiskaup er háttað en mun kanna það mál.

Varðandi spurninguna um ráðstöfun fósturvísa, þá erum við hér komin út á umræðubraut sem mörgum þykir býsna erfið. Hvernig á að ráðstafa fósturvísum og hvers eðlis eru fósturvísar? Hv. þingmaður sagði að samkvæmt lögunum sé þeim fargað eftir tiltekinn tíma. Menn hafa tekist nokkuð á um það, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim, hvernig ráðstafa megi fósturvísum. Það er, eins og hv. þingmaður benti á, nátengt hugmyndinni um staðgöngumæðrun.

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, ég held að það sé affarasælast að gera þessar breytingar í skrefum eins og gert hefur verið á þessum lögum, eitt skref í einu. Það eru tvö bannákvæði í 5. gr.: „Gjöf fósturvísa er óheimil. Staðgöngumæðrun er óheimil.“ Það eru þessi siðferðilegu álitaefni sem standa þarna í vegi og eru órædd í okkar samfélagi. Við ætlum að hefja umræðuna um staðgöngumæðrun opinberlega á morgun og tökum kannski á þessu atriði líka.

Ég hlýt að minna á að ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa goldið varhuga við þessu er að það hefur viljað brenna við að fósturvísar hafa gengið kaupum og sölum. Sama hefur komið upp varðandi staðgöngumæðrun. Tilhugsunin um þetta veldur tilfinningaumróti hjá fólki. Þess vegna er svo mikilvægt að umræðan sé tekin á undan ákvörðununum. Við þurfum einhvern veginn að dýpka þessa umræðu í samfélagi okkar um ráðstöfun fósturvísa, um mögulega gjöf fósturvísa og um staðgöngumæðrun.

Eins og heyra má hér í þingsal í dag, erum við öll sammála — allar sammála — frú forseti, um þau skref sem hér er lagt til að stigin verði og er það vel.