Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 12:58:46 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[12:58]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú kannski ekki hefðbundið andsvar við ræðu hæstv. ráðherra, ég vil bara þakka ráðherranum fyrir skýr og greinargóð svör. Ég átta mig á öllum þessum álitaefnum sem hún nefndi hér varðandi fósturvísana en ég held að það gæti verið áhugavert fyrir hæstv. ráðherra og fyrir okkur öll að afla upplýsinga frá Art Medica um geymslu frystra fósturvísa, hversu mikið magn af frystum fósturvísum er notað og hversu miklu magni er fleygt, þannig að við áttum okkur á umfanginu þegar við tökum þessa umræðu áfram. Þetta er bara ábending til hæstv. ráðherra. Ég er sammála hæstv. ráðherra, við þurfum að taka lítil skref hverju sinni. Þetta er hluti af þróun. Við erum að taka þetta skref núna. Það á eftir að fara fram siðferðileg umræða um ráðstöfun fósturvísanna en til þess að hafa allt undir í þeirri umræðu, held ég að væri gagnlegt fyrir okkur að átta okkur á þessu umfangi. Þar sem ég þekki til eru í kjölfar glasafrjóvgunar oftar en ekki geymdir tugir fósturvísa frá eina og sama parinu. Það gefur augaleið að þeir verða á endanum aldrei allir notaðir, kannski tveir, þrír, en þá er hent kannski 10, 20 fósturvísum frá hverju pari. Það væri því ágætt að fá fram þessar tölur fyrir áframhaldandi umræðu hér í þinginu um þetta þjóðþrifamál.