Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 14:22:28 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt á svona stundum sem manni finnst orðið „andsvar“ innihaldslítið. Hér ætti miklu fremur að vera liður sem heitir „meðmæli“, frú forseti, og ég ætla að gera líkt og sá sem hér stóð áður, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, og mæla með þessu frumvarpi.

Hér er verið að tala um ein hjúskaparlög, loksins. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir minntist á raðirnar tvær fyrir framan Fjölskylduhjálpina. Við höfum um árabil og áratugaskeið haft aðskilnað í hjúskaparlögum. Það er loksins á þessu ári sem við lærum lexíu okkar og ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta heillaskref til jafnræðis í samfélaginu. Við þurfum að finna allar þær glufur til að fylla upp í svo jöfnuður verði sannur í samfélaginu. Hér erum við að tala um gríðarlega mikilvæg mál, jöfnun tækifæra, en líka jöfnun hamingjutækifæra fyrir allt fólk í landinu. Það er í rauninni nöturlegt að standa hérna á þessu ári, 2010, og segja þessar setningar núna í stað þess að hafa getað sagt þær fyrir áratugum. Íhaldssemin í þessum efnum hefur verið óbærileg og ósanngjörn og þar hefur kerfið verið helsti hemillinn en ekki síður þjóðkirkja okkar Íslendinga sem hefur reyndar ekki verið þjóðkirkja í þessu máli.