Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 14:58:09 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:58]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur verið býsna merkilegur dagur í dag á Alþingi Íslendinga, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég hef tekið þátt í umræðum síðan kl. 10.30 í morgun, meira og minna, um flest þau mál sem hafa verið lögð fram, og það hefur verið óvenjumikil eindrægni og samstaða í salnum um þau mál sem hafa verið rædd. Það gerist ekki á hverjum degi.

Það mál sem við ræðum núna lýtur að breytingum á hjúskaparlögum og þeir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls um það hafa verið býsna sammála og allir fagnað þeim miklu réttarbótum sem felast í þessu frumvarpi og ég tek að sjálfsögðu undir það. Ég held að það sé ekki einn einasti þingmaður sem getur ekki verið sammála um að þetta sé mjög mikilvægt skref og ég vil líkt og aðrir þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þá miklu framsýni sem felst í frumvarpinu. Vissulega er það rétt sem nefnt var að þetta er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, þannig að þetta var á planinu eins og sagt er, en það er ekki þar með sagt að hlutir nái alltaf fram að ganga þó að þeir séu á planinu. Hér er um gríðarlega stórt og flókið og umfangsmikið mál að ræða, bandormur eins og það hefur verið nefnt hér, og því mun allsherjarnefnd að sjálfsögðu gefa sér góðan tíma til að fara yfir það. Ég held að okkur mundi ekki veita af því að fá jafnvel utanaðkomandi aðstoð til að fara yfir allt íslenska lagasafnið til að athuga hvort það séu hugsanlega einhver önnur atriði en nefnd eru í frumvarpinu sem þyrfti að breyta eða lúta að þessum breytingum.

Mig hálfpartinn óar, frú forseti, við önnum allsherjarnefndar á næstunni því að ég held að þetta sé sjötta málið í dag sem er á leiðinni þangað plús þau 20 eða 30 sem liggja fyrir í þeirri nefnd nú þegar. Það er því alveg ljóst að það verður nóg að gera hjá okkur eftir páska. En gott og vel. Þetta er mjög mikilvægt mál sem þarfnast vandlegrar athugunar og yfirlegu í nefndinni eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á. Ég mun freista þess, og ég hygg að allir nefndarmenn í allsherjarnefnd styðji mig í því, að reyna að ná þessu máli út þannig að það geti orðið að lögum í vor.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að koma aðeins inn á það sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði og þakka henni fyrir að muna eftir fortíðinni vegna þess að það skiptir máli og við gerum það allt of sjaldan í þessum stól. Við hrósum allt of sjaldan nema helst fólki sem er í okkar eigin flokki og helst hæstv. ráðherrum, en það er allt of sjaldan sem hrósað er fyrir það sem vel er gert, sérstaklega í fortíðinni, og það vill oft gleymast að ákveðið sporgöngufólk hefur rutt slóðina fyrir okkur hin, sérstaklega í réttindamálum, bæði í réttindamálum kvenna og í réttindamálum samkynhneigðra. Auðvitað er margs kyns annars konar réttindabarátta sem hægt væri að nefna en þetta tvennt nefni ég vegna þess að það er margt líkt með réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra á Íslandi þegar maður skoðar söguna. Þess vegna er mikilvægt að við munum eftir þeim konum og þeim körlum sem ruddu brautina í þessum efnum. Vissulega hefur þetta tekið langan tíma. Hér var nefnt að fyrst hefði verið samþykkt þingsályktun um þetta mál árið 1992. Það eru 18 ár síðan, það hefur sem sagt tekið 18 ár frá því að fyrst var hreyft við þessu máli að koma því í þann farveg sem það er í í dag. Auðvitað hefur réttindabarátta samkynhneigðra verið tekin í skrefum, tekið eitt lítið skref í einu. Ég hygg að þegar þetta frumvarp, og ég segi þegar, verður orðið að lögum sé hið lagalega jafnrétti samkynhneigðra komið í höfn, þ.e. að búið verði að tryggja samkynhneigðum lagalegt jafnrétti á við aðra þegna samfélagsins. Ef það er ekki rétt bið ég einhvern í salnum að leiðrétta það.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi hið frjálslynda Alþingi og ég hef verið svolítið hugsi yfir þessum orðum þingmannsins — þetta var haft eftir henni á forsíðu Fréttablaðsins nýlega þegar við samþykktum lögin um bann við starfsemi nektarstaða — um hið frjálslynda Alþingi. Ég held að þetta sé nefnilega rétt og ég ætla að halda því fram að það sé ekki tilviljun. Ég ætla líka að halda því fram að það sé ekki bara undir þeim 63 einstaklingum sem hér eru saman komnir komið, heldur ætla ég að halda því fram að það hafi orðið ákveðin hugarfarsbreyting á Alþingi í nálgunum á þeim málum sem við fjöllum um hverju sinni. Ég ætla líka að halda því fram að sá fjöldi kvenna sem situr núna á Alþingi hafi haft sitt að segja í þessum málum.

Stundum er verið að gagnrýna það, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á, það er verið að hnýta í okkur þingmenn og jafnvel hreyta í okkur ónotum og spyrja hvort við höfum ekkert þarfara að gera en að banna kaup á vændi, setja lög um nektarstaði o.s.frv. Eins og hv. þingmaður kom inn á eru þetta nauðsynleg mál í lýðræðissamfélagi og hví ekki einmitt að nota tímann núna, á þeim tímum sem við lifum núna eftir hið mikla hrun sem varð í samfélagi okkar? Við skulum átta okkur á því að hrunið var ekki bara efnahagslegt, það varð samfélagslegt hrun, og skoðun mín er sú að hugarfar mjög margra hafi breyst og menn hafi tekið til endurskoðunar ákveðin gildi, ákveðin lífsviðhorf og skipbrot frjálshyggjunnar og frelsisvæðingarinnar varð algert. Og við þær aðstæður, þegar slíkt los kemur á samfélag okkar, leyfir fólk sér líka að hugsa um svona hluti, þá leyfum við okkur að hugsa um þá hluti sem við erum að afgreiða þessa dagana.

Hér var nefnt bann við kaupum á vændi, hér var talað um lög um nektarstaði og fyrir klukkutíma síðan fjölluðum við um frumvarp um tæknifrjóvgun, sem tryggir einmitt mannréttindi samkynhneigðra til jafns við aðra sem og réttindi og mannréttindi einhleypra. Við settum lög um kynjakvóta nú á dögunum. Sett hefur verið af stað áætlun á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi mansal á Íslandi. Ég held að þegar litið verður aftur til þessa tíma á Alþingi Íslendinga — þó að manni finnist stundum hlutirnir hér vera algerlega kaótískir og finnist lítið gerast og lítið ganga undan þinginu — ég held að þegar sagan verður skrifuð og litið verður aftur til þessa tíma, verði hans m.a. minnst vegna allra þeirra mála og allra þeirra frumvarpa sem við höfum verið að afgreiða og snerta lýðræði og mannréttindamál. Við eigum að vera stolt af því og við eigum ekki að skammast okkar fyrir að ræða þau mál samhliða skuldavanda heimila, endurreisn bankanna o.s.frv.

Ég ætla líka að nefna nokkur önnur dæmi. Ég nefni t.d. fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna sem var haldin nýlega. Ég nefni frumvarp um stjórnlagaþing sem kemur vonandi inn í þingið fljótlega eftir páska, og ég nefni frumvarp sem verið er að vinna í viðskiptanefnd, afskaplega flókinn og mikill lagabálkur sem lýtur að því að herða reglur um eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Þetta eru ólík mál en engu að síður þegar þetta er skoðað í samhengi er þetta allt saman angi af sama meiði og það er ákveðin samfella í því sem ríkisstjórnin er að gera. Það má kannski segja að ég sé komin örlítið út fyrir efnið, sem er frumvarp um breytingar á hjúskaparlögum samkynhneigðra, en mér finnst þegar þetta allt er lagt sem púsl inn í heildarmyndina af því sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir eru að gera, gefi þetta ákveðna mynd af því hvernig Ísland við erum að reyna að skapa og hvernig Ísland við erum að reyna að reisa eftir hrunið. Þessu megum við ekki gleyma en það er oft erfitt að að sjá þessa heildarmynd í puðinu dagsdaglega. Þetta frumvarp er púsl í þessa heildarmynd og ég er afskaplega ánægð með frumvarpið og lögin eins og þau liggja fyrir.

Af því að þjóðkirkjan var nefnd hér, og vissulega hefur þjóðkirkjan haft skiptar skoðanir á þessu máli, vil ég fullyrða að þeim prestum innan þjóðkirkjunnar fer fjölgandi sem hafa talað máli samkynhneigðra og eru frjálslyndir í hugsun, og ég held að það verði afskaplega erfitt fyrir þjóðkirkjuna að leggjast gegn þessu frumvarpi. Þetta er það sem löggjafinn vill og við erum að ganga hér á undan með góðu fordæmi. Þetta eru líka ákveðin skilaboð út í samfélagið um vilja löggjafans. Það eina sem eftir er — af því að ég var að nefna áfanga í réttindabaráttu og að nú væru samkynhneigðir búnir að ná fullu lagalegu jafnrétti á við aðra þegna samfélagsins líkt og konur náðu fyrir einhverjum árum síðan — það sem eftir stendur er kannski hugarfarið og það sem við þurfum að einbeita okkur að er menntun, fræðsla og útrýming fordóma.

Mig langar að nefna eitt í þessu samhengi vegna þess að það sló mig mjög. Ég var á dögunum fengin í ónefndan sjónvarpsþátt á sjónvarpsstöðunni ÍNN og var þar í viðtali við tvo menn sem vildu ræða við mig um jafnréttismál eins og það var orðað. Farið var um víðan völl, rætt var um bann við kaupum á vændi og rætt var um nektarstaði, en svo vildu þessir tveir ágætu menn endilega ræða við mig um réttindi samkynhneigðra. Ég var alveg til í það og talaði um þetta frumvarp sem væri á leiðinni og þá kem ég að fordómunum og hugarfarinu. Þessir ágætu menn spurðu mig hvort það ekki ætti bara alveg eins að banna gleðigöngu samkynhneigðra á Laugaveginum á sama hátt og við værum að banna strippdans á strippbúllum nektarstaða vegna þess að gleðiganga samkynhneigðra misbyði siðferðiskennd þeirra. Þegar maður heyrir svona og er spurður svona spurninga árið 2010 verður maður nánast kjaftstopp. Auðvitað svaraði ég þessum tveimur mönnum fullum hálsi því að þarna er gersamlega ólíku saman að jafna. Ég tel að þetta sé verkefnið núna, að breyta þessu hugarfari, þessum fordómum og þessum viðhorfum í garð samkynhneigðra. Skólakerfið kemur þar inn í og ég held að Alþingi og löggjafinn eigi að velta því fyrir sér hvort t.d. er hægt að setja eitthvað inn í grunnskólalög varðandi fræðslu og slíkt fyrir grunnskólanema. Þetta tel ég vera verkefnið sem fram undan er.

Ég vil að lokum eins og aðrir sem tekið hafa til máls í umræðunni þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framlagningu þessa máls.