Hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 15:19:25 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[15:19]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls og ég heyri að undirtektirnar eru mjög góðar. Það er rétt að þetta er þó nokkur bandormur sem hér er lagður fram og auðvitað brýnt að breytingar á þeim lögum sem þar er gert ráð fyrir verði skoðaðar af þeim sem best til þekkja. Ég bendi á að Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr fól Hrefnu Friðriksdóttur, lektor í sifja- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, að semja þetta frumvarp og ég vil enn og aftur þakka stofnuninni og Hrefnu Friðriksdóttur fyrir góða vinnu. Ég geri ráð fyrir því að hún geti orðið góður liðsauki í að útskýra efni frumvarpsins fyrir allsherjarnefnd og fara yfir hin lagatæknilegu atriði sem þar þarf að ræða.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því, og það hefur ekki verið minnst á það hér í dag að neinu ráði, að ekki er gert ráð fyrir breytingu á því að kirkjulegur vígslumaður geti synjað því að vígja einstaklinga í hjúskap af sama kyni líkt og um staðfesta sambúð væri að ræða. Ég ætla hins vegar að benda á ráðagerð í frumvarpinu, í 6. kafla í greinargerðinni, nánar tiltekið undirkaflanum 6.1 Skylda eða heimild til að vígja. Þar er bent á það að borgaralegur vígslumaður getur ekki skorast undan því að vígja í hjúskap. Þar eiga hjónaefni ótvíræðan rétt á að fá vígslu en sams konar skylda hvílir ekki á kirkjulegum vígslumönnum. Bent er á í greinargerð að „skv. 2. mgr. 22. gr. hjúskaparlaga getur ráðuneytið, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt“. Ákvæðið er óbreytt frá setningu eldri laga en ráðuneytið hefur ekki nýtt þessa lagaheimild.

Neðar í þessum kafla kemur fram að ekki þyki ástæða til að leggja til lagabreytingar um þessi atriði en hvetja megi til þess að ráðuneytið skoði, að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri, hvort ástæða sé til þess að setja nánari reglur á grundvelli tilvitnaðrar greinar hjúskaparlaga.

Ég bendi líka á niðurlag í þessum kafla, 6.1, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.“

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þessu vegna þess að greinargerð er lögskýringargagn og ef hv. allsherjarnefnd tekur ekki undir þá ráðagerð sem þarna kemur fram eða hefur einhverja skoðun á henni er nauðsynlegt að það komi fram.