Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 15:40:29 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mál, og höfum rætt það í hv. efnahags- og skattanefnd, sem er mjög brýnt. Það snýr að því að skattyfirvöld geti kyrrsett eignir ef grunur kemur upp um skattundanskot. Þá eru menn aðallega að hugsa um stærri eignir og sérstaklega eignir sem eru mjög hreyfanlegar, þ.e. þær sem geta skyndilega horfið. Það var almenn sátt í nefndinni og ég vil taka það sérstaklega fram í byrjun að ég er mjög hlynntur því að skattyfirvöld fái þessa heimild. Þó að ég hafi miklar efasemdir um hvað þetta er víðtækt og hvað þetta er lítið afmarkað í hendi skattrannsóknarstjóra tel ég að það séu engu að síður það miklir hagsmunir í húfi að það verði að gera það.

Nokkru fyrir hrun fóru að berast fréttir af mjög stórum tölum í íslensku atvinnulífi. Menn höfðu þangað til ekki talað í þúsundum en kannski í milljónum, kannski í tugum milljóna og jafnvel hundruðum milljóna en nú fór allt í einu að koma upp nýtt hugtak, milljarður, og ekki bara einn milljarður heldur tíu eða hundrað og jafnvel þúsund milljarðar, sem er óskaplega stór tala. Ég er ekkert viss um að allir átti sig á hvað þetta eru stórar tölur. Og hvers vegna mynduðust þessar stóru tölur? Vegna þess að peningar gátu á vissan hátt farið í hring í atvinnulífinu með lánveitingum til kaupa á hlutabréfum, krosseignarhaldi og raðeignarhaldi og lánveitingum inni á milli o.s.frv., fyrirbæri sem ég reyni að taka á í frumvarpi sem verður dreift hér vonandi á eftir um gagnsæ hlutafélög. Þar reyni ég að taka á þessum vanda en hann gerði það að verkum að menn fóru að sjá tölur upp á milljarða og milljarðatugi vegna þess að peningar fóru í hring svo auðvelt var að margfalda þá. Það eru peningar sem eru ekkert endilega bundnir við Ísland, það er mjög auðvelt að flytja þá brott og þeir hverfa bara. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt að reyna að taka á þeim upphæðum sem eru hreyfanlegar og geta horfið til útlanda þar sem er erfitt um vik að ná í þær. Við erum að tala um stórar tölur og ég bendi á að milljarður er stór tala, þannig að það sé á hreinu svo menn átti sig á því af því að það er stórt hugtak og mjög stór upphæð.

Efasemdir sem ég hafði í nefndinni um þetta frumvarp eru vegna þess hversu víðtækt það er, lúta eiginlega að smáfuglunum á markaðnum, þ.e. bifvélaverkstæðum, iðnaðarmönnum sem eru með hlutafélög eða eru sjálfstæðir, bændum, trillukörlum, þessum smáatvinnurekstri sem margir horfa stundum til í hátíðarræðum og segja að þarna skapist störfin í þjóðfélaginu o.s.frv. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef nefnilega heyrt þær sögur í gegnum tíðina og talað við marga sem eru í atvinnurekstri, smáverslun eða einhverju slíku, að þessum mönnum stendur ákveðin ógn af toll- og skattyfirvöldum. Það má vel vera að það hafi lagast síðan því að þetta eru kannski fjögurra eða fimm ára gamlar upplýsingar. En þá stóð mönnum ákveðin ógn af þessum aðilum vegna þess að þeir stóðu í einhverjum deilum við þá og það var afskaplega ójafn leikur af því að skattyfirvöld hafa svo gífurlegar heimildir til að áætla, meta eignir, meta skuldir o.s.frv. og geta svo sett álögur og dráttarvexti o.s.frv. ofan á eitthvað sem þau hafa sjálf metið og fundið út.

Hér er verið að færa enn eitt verkfærið í hendur skattyfirvalda gagnvart öllum, ekki bara þessum stóru risum sem ég var að tala um áðan sem voru með milljarða. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að þó að það verði kannski ekki framkvæmt verði þetta eitthvað sem verði látið liggja að í umræðum t.d. um það ef ágreiningur er um hvort ákveðinn kostnaður megi dragast frá í rekstri eða hvort hann eigi að falla utan borðs í frádrætti frá skatti. Ég hef áhyggjur af þessu og tel að við þurfum að standa vörð um einstaklinginn og reksturinn gagnvart skattyfirvöldum. Það vill svo til að flest þau lög sem hv. Alþingi samþykkir í skattamálum eru framleidd að beiðni skattyfirvalda til þess að hafa betri tök á því að ná inn skatttekjum, sem oft og tíðum er mjög erfitt, ég fellst alveg á það. En á móti fá þeir kannski óhæfilega beitt vopn í baráttu sinni við skattborgarann sem oft er minni máttar í dæminu. Þess vegna hef ég dálitlar áhyggjur af þessu máli af því að það er eiginlega takmarkalaust niður á við, og þó að nefndin segi í nefndaráliti að það skuli almennt miðað við 5 millj. kr. kröfu og meira er það engu að síður nokkuð stór upphæð. Það er t.d. stór upphæð fyrir trillukarl eða einhvern slíkan ef metin er á hann 10 millj. kr. krafa eða að sagt að hann sé með þær skatttekjur af því að það er ekki vitað, það er bara grunur um það og hann hefur kannski ekki skilað skýrslu o.s.frv. Þetta er því vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að 5 milljónir sé allt of lágt. Skattyfirvöld geta áætlað gjöldin og sagt að grunur sé um að þau séu 6 milljónir eða 10 milljónir eða hvað það nú er.

Til þess að þetta vopn verði ekki of beitt og til að því verði ekki beint gegn aðilum sem ekki svíkja undan en eiga hreinlega í ágreiningi við skattyfirvöld um ákveðin mál, tel ég nauðsynlegt að sett sé ákveðið lágmark í þetta. Ég flyt um það tillögu ásamt með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að ef samanlagðar fjárhæðir væntanlegrar skattkröfu fésektar og sakarkostnað séu undir 50 millj. kr. skuli að jafnaði ekki heimilt að krefjast kyrrsetningar. Ég ætla að útskýra hvað „að jafnaði“ þýðir til þess að það liggi fyrir í þingtíðindum eða í þessari ræðu. „Að jafnaði“ þýðir að ef skattyfirvöld komast að því að önnur mál gagnvart þessum aðila eða tengdum aðila þessu máli þannig að krafan fari þá yfir 50 milljónir samanlagt í mörgum mismunandi málum sé hægt að veita kyrrsetningu, þannig að það liggi fyrir.

Ég tel að þetta sé nauðsynlegt því að það er mjög fljótlegt fyrir skattyfirvöld að spóla kröfuna upp í þessar fjárhæðir með því að segja að tekjurnar hafi verið þessar o.s.frv. þó að maðurinn hafi ekki viðurkennt það. Skattrannsóknin gengur einmitt út á að rannsaka það. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að þetta vopn verði ekki of beitt í höndum ríkisvaldsins og að menn geti náð í þá hákarla eða risa sem eru ástæða þess að menn fóru út í þetta, þ.e. að ná í hagnað. Það hafa komið fréttir af því að menn hafa millifært milljarð, eitt þúsund milljónir, inn á einhvern reikning án réttinda eða tilefnis. Það er líka verið að borga út hagnað upp á marga milljarða og þar erum við að tala um mjög stórar tölur. Ég er alveg innilega sammála því að þar þurfa skattyfirvöld líka að vera á verði vegna þess hvað þeir fjármunir eru hreyfanlegir og oft erfitt að finna út úr því hvað er raunverulega á seyði. Þetta getur tekið mjög langan tíma og þá jafnvel með eftirgrennslan um víðan heim. Þar finnst mér vera eðlilegt að menn geti beitt kyrrsetningu til þess að koma í veg fyrir að peningarnir verði horfnir þegar á reynir.

Hins vegar er þessi smáiðnaður sem ég gat um, þessir litlu skattaðilar eigi að vera lausir við þetta. Þeir eru oft og tíðum ekki með mikla skrifstofu á bak við sig og gleyma kannski að telja fram og þá eru áætlaðir á þá skattar.

Nú kann einhver að segja: Kyrrsetning, er það nokkurt mál? Það er stórmál og ég ætla að gera mönnum grein fyrir hvað það getur þýtt. Til dæmis má nefna einhvern bónda sem er með lítinn atvinnurekstur, mjólkurbú eða eitthvað slíkt. Hann þarf að borga áburð og hann þarf jafnvel að borga laun og eitthvað svoleiðis og hann þarf að borga skatta. Ef eignir hans yrðu kyrrsettar, t.d. hlaupareikningurinn hans, gæti hann ekki borgað neitt. Þetta á við um mörg önnur fyrirtæki, þau geta hvorki borgað út laun né greitt sjálfum sér eða greitt nokkurn skapaðan hlut. Ég hugsa að örlög flestra hlutafélaga, sem eru þá væntanlega í einhverjum smávandræðum, geti verið þau að þau fari hreinlega yfir um, verði gjaldþrota. Þá er enginn aðili að málinu því að sá sem kyrrsetningin beindist gegn er horfinn. Þetta er alls ekki einfalt mál og ég vara menn mjög eindregið við þessu.

Ef einhverjir einstaklingar lenda í því að bankareikningurinn eða hlaupareikningurinn er kyrrsettur geta þeir lent í miklum vandræðum. Bankinn bregst náttúrlega strax við með því að loka yfirdrætti og öllu saman og einstaklingurinn, hvort sem hann er með lítinn atvinnurekstur eða hvað það nú er, getur lent í verulegum vandræðum út af þessu. Ég ætla því að biðja menn um að fara mjög varlega með þetta mikla vopn sem heitir kyrrsetning, sérstaklega ef það beinist gegn einhverjum aðilum sem eru í raun ekkert að brjóta af sér eða þá að afbrotið er mjög smávægilegt. Þess vegna hef ég flutt tillögu um að talan verði að jafnaði yfir 50 millj. kr. fyrir allri kröfunni.

Að öðru leyti er ég mjög hlynntur því að reynt sé að tryggja þær skattkröfur sem menn hafa grun um að séu til staðar og þá í stóru málunum sem við höfum kynnst því miður oft í fréttum nú undanfarið. Það eru óskaplegar fjárhæðir, tugir milljarða skipta um hendur eins og að drekka vatn, eitthvað sem menn gátu ekki séð fyrir fyrir svona tíu árum, þá var þetta alveg óþekkt fyrirbæri. Ég minni bara á umræðu hérna fyrir nokkrum árum um stjórnarlaun upp á 40 milljónir, sem þótti voðalegt, þannig byrjaði þetta. Svo allt í einu voru stjórnarlaun komin upp í ég veit ekki hvað, miklu stærri tölur voru þá komnar í tísku. Ég held að menn þurfi að ná í þessa peninga og við þurfum náttúrlega að byggja upp traust aftur þar sem það var rofið gagnvart fjárfestingum í þessum fyrirtækjum. Ég minni á að ótrúlegur fjöldi hluthafa tapaði óhemjufé og ég hugsa að þeim hópi manna, um 55 þúsund manns, þyki það dálítið hart að heyra að fjármagnseigendur hafi allt á þurru, þeir sem eru búnir að tapa öllu því sem þeir áttu í hlutabréfum í þessum fyrirtækjum sem koma inn í þetta mál sem við erum að tölum um hér.

Ég styð þetta frumvarp eindregið en flyt þessa breytingartillögu til þess að hindra að vopnið verði of beitt gagnvart smáum atvinnurekstri eins og bændum, trillukörlum, iðnaðarmönnum og öðrum slíkum.