Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 16:14:11 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Trúlega er nú hægt að misnota flestöll verkfæri sem mönnum eru fengin upp í hendurnar með einhverjum hætti. En ég vil minna hv. þingmann á, það kemur fram í nefndarálitinu og það hefur komið fram í umræðum hér í þinginu, að hér er verið að tala um mjög stóra aðgerð sem kyrrsetning eigna er. Menn taka það mjög skýrt fram að við erum ekkert að ræða um nein smámál hér.

Setjum sem svo að einhver óprúttinn aðili í framtíðinni hjá skattinum mundi ákveða að herja á bifvélavirkjann sem á verkstæðið, það er mjög alvarleg aðgerð. Ég vil benda hv. þingmanni á að í breytingartillögum sem við stöndum sameiginlega að er hægt að leggja ágreiningsmál fyrir héraðsdóm. Ég mundi halda að héraðsdómur mundi taka tillit til þess anda sem ríkir hér, bæði með þessu nefndaráliti og þeim umræðum sem farið hafa fram um þetta mál. Kannski er hv. þingmaður líka að reyna að beina umræðunni í þann farveg þannig að þetta sé þá ákveðið lögskýringargagn.

Ég trúi því ekki að viðkomandi dómstóll mundi samþykkja þessa kyrrsetningu og þá væri skatturinn kominn í vond mál. Þá er hægt að hefja skaðabótamál á grundvelli þess að menn séu að misnota og beita þeim verkfærum sem þingið hefur sett, því að fyrst og fremst er þessu frumvarpi ætlað að tryggja hagsmuni ríkissjóðs gagnvart stórum aðilum sem hafa með mjög óprúttnum hætti reynt að koma eignum ríkisins, skattkröfum ríkisins undan og við það munum við ekki una. Þess vegna er ég mjög ánægður með það frumvarp sem við ræðum hér.