Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Föstudaginn 16. apríl 2010, kl. 15:15:40 (0)


138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála.

511. mál
[15:15]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kemur inn á þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi í réttarvörslukerfinu á okkar tímum. Ég hef litið svo á að þegar sérstakur saksóknari gerir grein fyrir því að hann þurfi aukið fjármagn til að geta sinnt sínu lögbundna hlutverki verði ég að gera grein fyrir því opinberlega. Þegar dómstólar telja að þeir þurfi auknar fjárheimildir til þess að geta starfað þá greini ég líka frá því opinberlega. Það var það sem ég gerði fyrir áramótin, ég greindi frá ákalli dómstóla um að fjölga þyrfti dómurum. Það var ákall frá dómstólaráði um að fjölga héraðsdómurum og það var ákall frá Hæstarétti um auknar fjárveitingar, þ.e. að horfið yrði frá þeim áformum að skera niður ákveðna fjárhæð í starfsemi Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur hins vegar ekki, svo að ég viti, sent ráðuneytinu erindi þess efnis að fjölga þurfi hæstaréttardómurum. Framkvæmdarvaldið er í þeirri stöðu að vissulega er ábyrgð ráðherra töluverð og í rauninni mjög mikil. Maður getur líka velt fyrir sér í sambandi við rannsóknarnefndarskýrsluna að það er ráðherrans að sjá til þess að ekki séu kerfisvillur í systeminu. Ég tel hins vegar að dómsvaldið verði að gera framkvæmdarvaldinu grein fyrir því ef það vantar auknar fjárheimildir til þess að ráða fleiri dómara en ég hef sjálf verið að íhuga þann möguleika hvort unnt sé að koma á einhverju sem gæti heitið álagsprófun á dómstóla.