Umboðsmaður skuldara

Föstudaginn 16. apríl 2010, kl. 16:39:15 (0)


138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstofnanir geta verið til margra góðra hluta nytsamlegar. Við sjáum það t.d. núna í þeim miklu hamförum sem dynja yfir á Suðurlandi að þar koma opinberar stofnanir að og vinna góð störf.

Það er mikilvægt, held ég, að fara þessa leið. Ég er sjálfur enginn sérstakur áhugamaður um endalausa útþenslu opinberra stofnana en þarna eru skýr rök fyrir hendi. Við höfum séð að á köflum hefur verið erfitt fyrir Ráðgjafarstofuna að fóta sig í því hlutverki að vera hlutlaus ráðgjafi. Hún hefur þar af leiðandi þurft að afhenda fólki mikið sjálfdæmi í eigin málum þegar það kemur í miklum vanda inn með sín erfiðu skuldamál og þurft að afhenda fólki matseðil ólíkra úrræða þegar augljóst er að stofnun sem hefði haft það verkefni að sinna hagsmunum skuldara og koma málum þeirra í horf hefði byrjað að vinna með viðkomandi skuldara og leiða hann inn í nauðasamningaferli eins og við leggjum í sjálfu sér núna til, þ.e. að stofnunin komi beint að hinu frjálsa greiðsluaðlögunarferli, taki utan um skuldarann og vinni með honum í gegnum ferlið.

Ég hlakka til meðferðar félags- og tryggingamálanefndar á þessum tiltekna þætti. Ég held að það séu skýr efnisleg rök fyrir því að fara þessa leið og fela þessari stofnun þetta verkefni, líka í ljósi þess að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna þurfti annaðhvort löggjöf eða einhverja aðra umgjörð og var í sjálfu sér stofnun sem þurfti að taka einhverja ákvörðun um hvert ætti að fara með.