Jafnvægi í ríkisfjármálum

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:11:10 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

jafnvægi í ríkisfjármálum.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú kannast ég við gamla Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um álagningu skatta á árinu 2011 og ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum innan þessa árs. Það skiptir að sjálfsögðu máli, eins og hv. þingmaður nefnir, hvernig tekjustofnarnir þróast. Þau eru svolítið misvísandi skilaboðin sem koma í þeim efnum. Beinu skattarnir hafa heldur gefið eftir á sama tíma og veltuskattar eru alveg samkvæmt áætlun, sem bendir til þess að umsvifin í hagkerfinu að því leyti hafa ekki skerst, auk þess sem í þessu eru auðvitað alltaf frávik milli mánaða. Það ber því að varast að taka of mikið mark á tölum einstaka mánaðar. Páskar eru stundum í mars og stundum í apríl og fleira í þeim dúr, það skiptir máli þegar þetta er skoðað.

Horfurnar eru að mörgu leyti ágætar og alls ekki lakari en þær voru, a.m.k. þangað til að heldur fór að dökkna yfir hjá ferðaþjónustunni. En umsvifin í hagkerfinu hafa fram að þessu verið ívið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og allar vonir stóðu til að það gæti haldist áfram. Síðan verðum við að vona hið besta.