Skuldavandi heimilanna

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:14:35 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að það er eitt af viðameiri verkefnum sem eru í gangi og eru fram undan að vinna úr málefnum skuldugra heimila og skuldugra fyrirtækja. Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvörp um talsverðar viðbótaraðgerðir í þeim efnum sem bætast við þau úrræði sem áður voru lögfest eða í boði auk þess sem viðskiptabankar og fjármálastofnanir vinna nú samkvæmt ákveðnum tillögum sem þau hafa útfært.

Það er ekkert launungarmál að mikill fjöldi fjölskyldna í landinu á við mikla erfiðleika að etja, það kemur því miður ekki á óvart og gat varla öðruvísi farið þegar jafngríðarleg áföll ganga yfir þjóðarbúið og við höfum þurft að taka á okkur. Stjórnvöld hafa gert mjög margt sem talið var vera innan viðráðanlegra marka, svo sem eins og að stórhækka vaxtabætur, heimila útgreiðslu séreignarsparnaðar, reyna að hlífa tekjulægra fólkinu við skattahækkunum með því að taka upp sérstakt lágtekjuþrep í tekjuskatti og síðan þær fjölþættu aðgerðir varðandi skuldavandann sem þegar var búið að grípa til og eru núna til meðferðar á Alþingi. Þetta er alltaf spurning um hvað er gerlegt og hvað við ráðum við að gera við þessar aðstæður. Ég held, og það hefur ekkert breytt þeirri sannfæringu minni, að okkar efnahagslegu aðstæður setji okkur þær skorður að úrræði stjórnvalda verði að vera markviss, hnitmiðuð og að við reynum að aðstoða þá sem eru í mestri þörf. Við höfum ekki ráð á stórfelldum almennum aðgerðum sem gagnast jafnt þeim sem þurfa á því að halda og hinum sem ekki þurfa þess. Það er niðurstaðan alls staðar þar sem þetta er skoðað. Það er sama hvort það er Seðlabankinn eða aðrir sem á það hafa lagt mat þannig að þar kann okkur að greina á, mig og hv. þingmann. Um hitt getum við varla deilt, að ríki og sveitarfélög eru ekki í góðri aðstöðu til að gera það sem menn vildu gjarnan geta gert, að leysa hvers manns vanda bara sisona. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig að svigrúm okkar er mjög takmarkað og við það verðum við að lifa