Skuldavandi heimilanna

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:18:00 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort áhugi einhverra amerískra vogunarsjóða á kröfum í gömlu bankana hefur mikið gildi í þessu sambandi. Það sem við erum að ræða um er innan nýju bankanna og raunhagkerfisins íslenska. Spekúlasjónir þeirra koma þar lítið við sögu (Gripið fram í.) að því tilskildu að uppgjörið haldi milli gömlu og nýju bankanna. Hv. þingmaður verður að hafa í huga, sem hefur engu að síður þurft að benda framsóknarmönnum á dálítið oft, að þó að lánasöfn í heild sinni séu færð yfir á tilteknum afskriftahlutföllum þýðir það ekki að að meðaltali tapist nákvæmlega það af hverju láni, heldur er það þannig að sum mundu væntanlega endurgreiðast að fullu en önnur alls ekki. Það verður að hafa í huga að ef bankarnir bjóða svo almenn úrræði af stærðargráðunni 25–30% af viðkomandi lánaflokkum eru þeir þegar búnir að taka mjög mikið yfir á sig þannig og síðan afskrifast eitthvað að fullu og bætist við þau töp sem verða á útlánum þeirra.

Varðandi afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins held ég að almennt hafi hann verið talsmaður þess og þau sjónarmið hafi komið þar fram (Forseti hringir.) að aðgerðir stjórnvalda eigi að vera hnitmiðaðar og markvissar og beinast að þeim hópum sem í mestri þörf eru fyrir aðstoð. Ég veit ekki betur en að hann sé í aðalatriðum sáttur við þau úrræði sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til hingað til.