Skuldir heimilanna og nauðungaruppboð

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:19:27 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldir heimilanna og nauðungaruppboð.

[15:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að varpa fram spurningum til hæstv. fjármálaráðherra vegna athyglisverðra atriða sem fram koma í viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þá kannski sérstaklega atriða sem fram koma í 18. gr. þeirrar viljayfirlýsingar og lúta að skuldum einkaaðila. Það er kunnara en frá þurfi að segja að skuldavandi tugþúsunda íslenskra heimila er því miður mjög alvarlegur og ég held að enginn maður deili um að ríkisstjórninni hefur mistekist að leysa þann vanda. Ýmislegt bendir til þess að hún ráði ekki við hann. Skjaldborgin er ekki risin og ekkert bendir til þess að hún muni yfir höfuð rísa.

Í 18. gr. viljayfirlýsingarinnar kemur fram að ríkisstjórnin boðar löggjöf til að bæta úr þeim úrræðum sem hún hefur þegar komið fram með varðandi skuldavanda heimila. Það sem er athyglisverðast í þeirri yfirlýsingu er að þar er sérstaklega tekið fram að þegar þessi úrræði hafa verið lögfest fyrir lok júní 2010 muni ríkisstjórnin ekki fresta frekar greiðslustöðvunum eða nauðungarsölum eftir októberlok 2010. Þetta er athyglisverð yfirlýsing, sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem heimilin eru í. Það kemur fram í nýlegri skýrslu Seðlabankans og nýleg könnun ASÍ sýndi að rúmlega 90% þeirra heimila sem nýtt hafa sér úrræði ríkisstjórnarinnar telja að meira þurfi að koma til.

Þessi yfirlýsing hlýtur að vera bindandi fyrir ríkisstjórnina og ég vil fá að vita hjá hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir ef henni tekst ekki að koma í veg fyrir skuldavanda heimilanna og leysa hann (Forseti hringir.) fyrir októberlok 2010. Skellur þá á hér holskefla nauðungaruppboða á skuldugustu heimili landsins?