Skuldir heimilanna og nauðungaruppboð

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:21:54 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldir heimilanna og nauðungaruppboð.

[15:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það fer alveg sérstaklega vel á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hér upp og leggi þessi mál þannig fyrir að það sé bara alveg sérstakur aumingjaskapur af ríkisstjórninni að hafa ekki leyst allan skuldavanda almennings í landinu. Það kemur úr hörðustu átt, verð ég að segja, að ímynda sér að það séu einhver töfrabrögð í okkar höndum sem geti bara gert þetta allt saman gott eftir eitt stykki banka- og efnahagshrun sem hér varð á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Það er ekki þannig. Hins vegar er verið að reyna allt sem mögulegt er. Ég tel að þær aðgerðir og þau úrræði hafi þegar hjálpað mjög mikið til, gert mjög stórum hluta fólks kleift að vinna úr sínum málum þó að mikið sé eftir í þeim efnum.

Varðandi 18. gr. og það sem sagt er í viljayfirlýsingunni kveður þar við þann gamalkunna tón sem verið hefur í þessum yfirlýsingum frá byrjun að það eigi að draga að því skýr mörk hversu mikið tap sem leiðir af fjármálahruninu verði tekið yfir á hið opinbera, að það eigi ekki að félagsvæða tapið umfram það sem óumflýjanlegt er. Það stef ætti hv. þingmaður að kannast við, „no further socialization of losses“, ef hann skilur það betur á ensku. Ég hygg að þetta orðalag hafi komið inn í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.

Það er rétt að stefnt er að því að lyfta þeim takmörkunum á nauðungaruppboðum sem settar voru á til að skapa fólki ráðrúm til að vinna úr málum sínum, nýta sér úrræðin og komast með sín mál í þann farveg. Þá ákvörðun var þegar búið að taka áður en núverandi yfirlýsing var undirrituð og frumvarp var komið fram um það að frystingunni á nauðungaruppboðunum yrði aflétt í áföngum á þessu ári. Þau mál færðust því smátt og smátt yfir í venjulegan farveg, enda held ég að engum hafi dottið í hug að við gætum búið við þannig ástand um ókomin ár að hér væri ekki hægt að fullnusta mál með þeim hætti sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Hins vegar var það skjól sem þannig var búið til mjög mikilvægt og það hefur m.a. nýst þúsundum og aftur þúsundum heimila til að leita sér ráðgjafar, velja þau úrræði (Forseti hringir.) sem þeim hentuðu best og koma sínum málum í þann farveg.