Orð seðlabankastjóra um innstæðutryggingar

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:32:02 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

orð seðlabankastjóra um innstæðutryggingar.

[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að árétta það að allar innstæður eru eins og sakir standa tryggðar og þær verða það þangað til annað verður boðað. Reyndar er nú hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kominn í salinn sem þetta heyrir undir frekar en þann sem hér stendur.

Ég held að það sé líka ástæða til að hafa í huga að hinar nýju fjármálastofnanir eru auðvitað settar á laggirnar með hliðsjón af því ástandi sem hér er og það eru gerðar mjög ríkar kröfur um eigin fjármögnun þeirra, mun hærra hlutfall en almennt er viðhaft, kannski 16% í staðinn fyrir 8%. Í þeim skilningi ættu allir að geta verið öruggir með innstæður sínar, þær eru þá vistaðar núna í endurreistum eða endurfjármögnuðum fjármálastofnunum með mjög sterkan eiginfjárhag. Ekki ætti því að vera ástæða til að hafa áhyggjur af því þó að hið nýja innlánstryggingakerfi verði ekki mikið fjármagnað fyrstu missirin sem það verður við lýði, eðlilega, því að þar þarf að byggjast upp sjóður á komandi tímum. (Forseti hringir.)

Sem sagt, þegar fréttir berast af þessu verða þær fluttar en annað er ekki hægt að segja um málið á þessu stigi.