Staða Íbúðalánasjóðs

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 15:34:56 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Málefni Íbúðalánasjóðs heyra undir félagsmálaráðherra en að sjálfsögðu fylgjumst við með þeim í fjármálaráðuneytinu og höfum af þeim áhyggjur. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, svo sárgrætilegt sem það er, að Íbúðalánasjóður varð fyrir umtalsverðum skakkaföllum bæði á árinu 2008 og 2009, ekki fyrst og fremst vegna þess að um töpuð útlán væri að ræða til viðskiptavina sjóðsins heldur vegna þess að hann tapaði talsverðu fé sem hann átti geymt eða sem var í ávöxtun hjá öðrum fjármálastofnunum. Það er sárgrætilegt. Það hefur leitt til þess að eigið fé sjóðsins er komið nokkuð niður fyrir þau viðmiðunarmörk sem menn hafa viljað halda sig við, 4% eða helst 5%, og þarf þá einhverra aðgerða við til þess að koma því í samt lag aftur. Það er að vísu búið að auka eitthvað vaxtaálag í útlánum en það kemur eingöngu til góða í nýjum útlánum en ekki í því sem fyrir er þannig að það er að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka að grípa verði til einhverra aðgerða til að styrkja stöðu Íbúðalánasjóðs á næstunni. Þau mál eru í athugun, félagsmálaráðherra hefur kynnt stöðu sjóðsins í ríkisstjórn og frekari tillagna er að vænta í þeim efnum innan skamms.