138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:42]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu um sparisjóðakerfið á Íslandi sem er okkur mörgum mjög kært og flestum held ég. Ég velti fyrir mér þegar ég var að undirbúa mig fyrir þessa umræðu hver væri eiginlegur munur á sparisjóði og viðskiptabanka. Það fer í rauninni ekkert á milli mála því að í lögum um fjármálafyrirtæki, sem við breyttum í sumar og þar sem sérstaklega voru tekin fyrir ýmis ákvæði sparisjóðanna, kemur mjög ákveðið fram að sparisjóður hefur skilgreint samfélagslegt hlutverk í samþykktum sínum. Þar kemur mjög skýrt fram, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um rétt áðan, að stofnfé hefur annað eðli en hlutafé og stofnfjáreigendur bera ekki ábyrgð umfram stofnfjáreign sína. Síðan kemur mjög ákveðið fram að sögulega séð eru sparisjóðir fyrst og fremst fjármálastofnanir minni byggðarlaga sem á ákveðnum tíma áttu ekki sama aðgang að fjármagni og hin stærri. Fólkið í byggðarlaginu lagði fé sitt í sjóðinn, svokallað stofnfé, og sló þannig tvær flugur í einu höggi, ávaxtaði fé sitt og studdi við atvinnustarfsemi heima fyrir.

Ákveðin fjölbreytni í fjármálafyrirtækjaflórunni skiptir okkur mjög miklu máli og þess vegna eigum við að standa vörð um sparisjóðakerfið. Auðvitað verðum við að horfast í augu við það að ákveðin skynsemi verður að vera í því hvað það kostar, þannig að við leggjum ekki allt að veði við endurreisn ákveðins kerfis. Við verðum að vita hvað það kostar og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra fari aðeins inn á það á eftir.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að í raun og veru voru sparisjóðirnir miklu verr staddir en við gerðum okkur grein fyrir flest held ég. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að afkoma kjarnastarfsemi sparisjóðanna var neikvæð löngu fyrir hrun. Ég hafði gert mér grein fyrir því og um það var mikið talað að stofnfé var hækkað mjög og greiddur var út arður þó að allir vissu að eiginfjárstaðan væri afar veik. Það er ljóst að við verðum að horfast í augu við það að við þurfum að draga lærdóm af því sem gerðist innan sparisjóðanna og jafnvel að rannsaka það enn frekar. Við verðum að horfast í augu við það, þó svo að við séum mörg mjög skotin í sparisjóðakerfinu, að þar viðgekkst ýmislegt sem við viljum ekki sjá.

Ég held að það skipti okkur mjög miklu máli að við förum í stefnumótun, að við ákveðum það hér á pólitískum vettvangi hvernig sparisjóðakerfi við viljum sjá og felum síðan Bankasýslu ríkisins að útfæra það fyrir okkur meðan staðan er eins og hún er. Það er einnig mjög áhugavert að sjá að velta þeirra sem ekki eru farnir á hausinn var í raun og veru einungis 10% af heildarveltu sparisjóðanna. Mér finnst það segja okkur ákveðna sögu um það hve stærðin getur verið vandmeðfarin og í raun og veru hættuleg.

Við vitum af þeim vanda sem hér hefur ítrekað verið talað um í umræðunni, hversu illa fór fyrir mörgum sem juku stofnfé sitt. Vonandi finnum við leið til að hjálpa því fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum sem hafa farið mjög illa út úr stofnfjáraukningu. Við getum ekki annað en horfst í augu við að það er ákveðið samfélagslegt mein sem við verðum að takast á við.

Ég hef fulla trú á því að eftir fjárhagslega endurskipulagningu verðum við með öflugt sparisjóðakerfi eftir sem áður, minna en það er núna, öflugt og heilbrigt. Það skiptir nefnilega miklu máli að hið nýja kerfi, sem rís úr öskustó þess sem féll, sé heilbrigt sparisjóðakerfi með aukinni áherslu á upprunalegt hlutverk sitt., þ.e. að vera ekki síst til fyrir fólkið á landsbyggðinni og með skilgreint samfélagslegt hlutverk.