138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það að við skulum eiga hér lengda umræðu um uppbyggingu sparisjóðakerfisins í landinu og veitir svo sannarlega ekki af þeim tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Við framsóknarmenn höfum á undangengnum mánuðum og árum talað fyrir mikilvægi sparisjóðanna, sérstaklega fyrir landsbyggðina. Mér heyrist á þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag að við framsóknarmenn eigum ágæta samleið með ríkisstjórninni þegar kemur að málefnum sparisjóðanna.

Vegna orða hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, fyrr í umræðunni um að einhverjar ávirðingar væru um meint áhugaleysi hans eða annarra í ríkisstjórn á því að byggja upp þetta mikilvæga rekstrarform get ég einfaldlega staðfest það fyrir mína parta, eftir samtöl við hæstv. ráðherra, að þar fer maður sem hefur áhuga á því að byggja upp sparisjóðina á þeim gildum sem þeir voru upphaflega stofnaðir til. Við framsóknarmenn erum einfaldlega sammála þeim áherslum þó að okkur geti greint á um það hversu hratt við viljum koma þeim framkvæmdum í verk, en við viljum eiga gott samstarf við ríkisstjórnina um uppbyggingu þeirra.

Þessar stofnanir eru nefnilega kjölfestan í mörgum, litlum samfélögum vítt og breitt um landið. Þær hafa styrkt marga innviði í sínum samfélögum, íþróttafélög, menningarstarf og fleira mætti nefna.

Ég kem úr bæ þar sem elsti starfandi sparisjóður á Íslandi er í dag, Sparisjóður Siglufjarðar. Mig minnir að hann hafi verið stofnaður 1873 og er hann þá orðinn 137 ára. Sú stofnun er ekki stöðnuð. Hún er mikilvæg í mínum heimabæ. Þar vinna yfir 40 manns í dag. Þetta er einn stærsti vinnustaður bæjarins. Þessi elsta starfandi peningastofnun landsins hefur verið mjög drjúg í því að ná sér í verkefni til að skjóta meiri kjölfestu undir byggðina í samfélagi sínu.

Það er mikilvægt að vítt og breitt um landið horfum við upp á sparisjóðina starfa í þeirri mynd sem þeir voru upphaflega ætlaðir til. Ég lýsi yfir miklum áhuga hjá okkur framsóknarmönnum á að koma að þeirri uppbyggingu og að þeirri framtíðarsýn því að ég tel að með öflugum sparisjóðum vítt og breitt um landið séum við í raun og veru að endurreisa íslenskt efnahagslíf og íslenska fjármálastarfsemi. Með fleiri sparisjóðum erum við að gera íslenska fjármálamarkaðinn fjölbreytilegri.

Mig langar aðeins að minnast á það hvernig komið er fyrir mörgum fjölskyldum í tilteknum samfélögum sem leituðust við að styrkja við sparisjóðinn sinn. Þar get ég nefnt Húnaþing vestra og líka Dalvíkurbyggð þar sem tugir fjölskyldna eru nú í gríðarlega erfiðum málum vegna þess að fólk lagði þar inn mikla fjármuni, tók jafnvel lán eftir mikla hvatningu, til að styðja við bakið á sparisjóðnum sínum. Það er mikilvægt byggðamál að við leysum úr þessum vanda sem allra fyrst.

Á laugardaginn hitti ég Elínu R. Líndal, formann byggðaráðs í Húnaþingi vestra, og hún lýsti ágætlega fyrir mér hvernig staðan er í því litla samfélagi. Það má einfaldlega ekki dragast lengur að menn takist á við þetta byggðamál. Það mál sem snertir miklar skuldir bænda og einstaklinga í Húnaþingi vestra er farið að hafa greinileg áhrif á samfélagið. Menn þurfa að takast á hendur að leysa úr þessu vandamáli, rétt eins og í fleiri samfélögum eins og ég nefndi, til að mynda í Dalvíkurbyggð.

Ég hlakka til þess, frú forseti, að eiga aðkomu að því að móta framtíðarsýn um hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar. Þar munu sparisjóðirnir gegna lykilhlutverki. Hugmyndafræði sparisjóðanna er ekki svo ólík samvinnustefnunni; einn maður/eitt atkvæði, lýðræðisleg stofnun sem ég hef mikinn áhuga á að við sjáum endurvakta vítt og breitt um landið. Eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan verða trúlega 11 sparisjóðir starfandi í framtíðinni hér á landi. Vonandi verða þeir fleiri því að fólki þykir vænt um sparisjóðinn sinn. Sparisjóðurinn hefur mikil tengsl við fólkið í þessum byggðarlögum og fólk skiptir við sparisjóðinn sinn. Vonandi getum við byggt upp hógværar stofnanir sem stunda eingöngu viðskipti við fyrirtækin (Forseti hringir.) á sínum stað og fólkið á staðnum, viðkomandi byggðarlagi til hagsbóta. (Forseti hringir.)