138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mjög þarft að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra upplýsi okkur um stöðu þessara mála.

Ég vil byrja á því að taka upp þráðinn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þar sem hann fjallaði um stöðu byggðarlaga. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að líklega sé ein af sorglegustu afleiðingum bankahrunsins mikil lántaka hjá einstaklingum og fyrirtækjum, einkum einstaklingum, til stofnfjárkaupa sem fara mjög illa með byggðarlög, eins og til að mynda Húnaþing vestra núna.

Samkvæmt úttekt sem gerð var af Byggðastofnun fyrir sveitarfélagið Húnaþing vestra kemur fram að 137 aðilar eigi þarna stofnfé og það nemi nokkrum milljörðum króna. Til samanburðar er tekið fram að heildartekjur hjá íbúunum á þessu svæði séu um tveir milljarðar króna á ári. Þarna hvíla á skuldir sem eru yfir launatekjunum á viðkomandi svæði. Þetta er grafalvarlegt mál og ég tek undir með þeim sem hafa hér talað um hversu dapurlegt þetta er.

Hér hefur verið rifjuð upp saga sparisjóðanna, hvernig hún byrjaði og hvenær. Þetta byrjaði allt þegar Fjármálaeftirlitið heimilaði Sparisjóði Hafnarfjarðar að selja stofnbréf á yfirverði. Þá byrjaði hasarinn, þá var búið að kasta þessum bolta og eftir það fór þessi taumlausa einkavæðing á sparisjóðunum af stað þar sem ekkert var heilagt. VG flutti ítrekað tillögur á þingi, skrifaði greinar, talaði gegn þessu, lagabreytingartillögur voru ítrekað lagðar fram á hverju löggjafarþinginu á fætur öðru, en þeim var ekki vel tekið. Nú er það að koma á daginn að hefði verið gripið inn í og ráðist í einhverjar þeirra tillagna sem þá voru lagðar fram væri ástandið ekki með þessum hætti í Húnaþingi vestra.

Okkur ber að horfa til framtíðar með þetta sparisjóðakerfi og hvernig við viljum sjá það þróast áfram. Ég held að ráðast þurfi í mun róttækari breytingar á lagaumgjörðinni til að verja fyrirtæki sem þessi og þá félagslegu hugsjón sem þar býr að baki. Það má velta fyrir sér hugsanlegri sérlöggjöf um starfsemi sem þessa, að henni sé hugsanlega ekki nægilega vel fyrir komið inni í þessum almennu lögum um fjármálafyrirtæki, en heildarendurskoðun á þessu rekstrarformi verður að fara fram og með þær hugsjónir að leiðarljósi sem þarna búa að baki.

Hitt verðum við líka að horfa á, það hvernig þetta gerðist. Við getum tekið til að mynda þá sem eru í Húnaþingi vestra og víðar sem eru með miklar skuldir á bakinu. Á hvaða forsendum var þessu fólki veitt lán? Hvaða upplýsingar fékk það? Hverjir voru þarna í stafni? Hverjir töluðu mest fyrir þessu? Auðvitað leysir það ekki vandann, en þetta er klárlega það sem þarf að skoða og það kemur til að mynda fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna. Það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga, en í skýrslunni er líka tekið fram að sparisjóðirnir og það sem þar gekk á verðskuldi rannsókn.

Ég er með í undirbúningi þingsályktunartillögu sem ég vonast til að ríkur stuðningur verði við hér. Hún felur í sér ítarlega rannsókn á því hvað gekk á í sparisjóðunum og það verði síðan útfærsluatriði hvort því verði skilað til þeirrar nefndar sem nú er að vinna þetta eða hvort rannsóknarnefnd sparisjóðanna skili sjálfstæðu áliti. Þar verði farið ofan í allar þær lagabreytingar sem voru gerðar með það að markmiði að ráðast að sparisjóðakerfinu, það verði farið ofan í það hvar mistökin lágu, hvað hafi farið úrskeiðis og veikt þetta félagslega rekstrarform sem kom því í þá stöðu sem það er í í dag.

Ég sakna þess að í þingsal skuli ekki vera þeir sem töluðu hvað mest fyrir því að ráðast í þessa einkavæðingu á sparisjóðakerfinu. Ég vil að endingu segja að fyrr í dag var í umræðunni minnst á ameríska bíómynd sem heitir Groundhog Day sem fjallar um það að einstaklingur vaknaði upp á hverjum degi (Forseti hringir.) og lifði sama daginn aftur. Hvernig var þetta hér? (Forseti hringir.) Menn vöknuðu upp á hverjum degi og þeir spörkuðu í þetta félagslega kerfi — samfellt. (Forseti hringir.)

Ég fagna því að (Forseti hringir.) þingmenn séu komnir út úr þessum Groundhog Day (Forseti hringir.) og vonast til þess að (Forseti hringir.) þegar farið verður að ræða þetta (Forseti hringir.) frekar hoppi menn ekki aftur inn í (Forseti hringir.) þennan svart/hvíta raunveruleika.