138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[17:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka ágæta umræðu sem hefur verið málefnaleg og að mínu mati dregið fram víðtækan stuðning þingheims við sparisjóðakerfið og sparisjóðahugsjónina. Í ljósi þess tel ég engan vafa á að hægt verður að safna liði og fá þann stuðning sem þarf bæði innan þings og utan til þess að ýta endurreistu sparisjóðakerfi úr vör með eðlilegri umgjörð sem væntanlega endurspeglar þær hugsjónir sem menn hafa rætt í dag og voru grunnurinn að sparisjóðakerfinu þegar það fyrst leit dagsins ljós á 19. öld.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði réttilega að stofnfé og hlutafé væri ekki það sama. Um það er enginn ágreiningur. Ég verð þó að benda á að eitt af því sem leiddi til þess að sparisjóðakerfið sogaðist niður með bankakerfinu í fallinu var að menn fóru í ríkum mæli að líta á stofnfé sem nánast ígildi hlutafjár á síðustu árum fyrir hrun bankakerfisins. Það á ekki að vera það sama. Hvort tveggja er að vísu eigið fé en hluthafar í hlutafélagi, hvort sem það er banki eða eitthvert annað hlutafélag, eiga allt fyrirtækið. Þeir eiga kröfu á allt eigið fé og allan hagnað. Stofnfjáreigendur í sparisjóði með sama hætti og sambærilegir eigendur að kaupfélögum eiga ekki kröfu á allt eigið fé viðkomandi fyrirtækis. Þeir eiga sinn hlut og þeir geta fengið á hann eðlilega, heilbrigða og vonandi ágæta ávöxtun en þeir eiga ekki kröfu á afganginn af eigin fé viðkomandi sparisjóðs eða kaupfélags ef út í það er farið. Þessu reyndu menn að breyta og tókst á síðustu árum fyrir hrun bankakerfisins. Sú leikfimi skildi ekki bara sparisjóðakerfið eftir stórskuldugt heldur líka stofnfjáreigendur.

Nú hefur þingið breytt lögum um fjármálafyrirtæki og sérstaklega ákvæðum um sparisjóði á þann veg að ekki á að vera hægt að leika þennan sama leik aftur. Ég tel að lögin geri það skýrt og ég vona og trúi að menn hafi lært nógu mikið af reynslunni til þess að lögunum verði ekki aftur breytt í það horf sem þau voru þegar mönnum tókst á undanförnum árum að sneiða hjá þeim grundvallarmun sem er á stofnfé og hlutafé.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði um kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna sviptinga undanfarinna daga í sparisjóðakerfinu. Ríkissjóður verður því miður fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna vandræða sparisjóðakerfisins. Það tjón kom í raun og veru að mestu fram haustið 2008 vegna lána Seðlabankans til Sparisjóðabankans, eða Icebank, fyrst og fremst og óbeint til sparisjóða – það var verulegt tjón. Ég fæ ekki séð að við þessar breytingar bætist á það tjón. Að vísu mun ríkissjóður fyrirsjáanlega leggja sparisjóðum til talsvert eigið fé en það er eign sem vonandi skilar arði og er jafnvel hægt að selja síðar. Ef reksturinn gengur þokkalega og helst vel fær ríkið það fé aftur með vöxtum. Ríkið tekur ákveðna áhættu, eins og allir aðrir sem leggja fyrirtækjum í rekstri til eigið fé, en ekki er verið að niðurgreiða tap annarra eða taka á sig fyrirsjáanlegt tjón. Ríkið ber auðvitað áhættu nú þegar. Hún breytist í raun og veru ekkert við það sem gerðist í síðustu viku vegna yfirlýsinga um að allar innstæður séu tryggar en ég á von á því að eignir Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs nægi fyrir innstæðum þannig að ekki reyni á það.

Að lokum þetta: Tveir hv. þingmenn nefndu til sögunnar bandaríska kvikmynd sem heitir Groundhog Day . Vissulega má líkja ýmsu í íslensku samfélagi síðustu missirin við þá ágætu kvikmynd en ég ætla að leyfa mér — svona til þess að enda umræðuna á björtum nótum — að minna á að sú mynd fékk hamingjusaman endi eins og bandarískar kvikmyndir gera almennt.