Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 17:30:40 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra að reifa þessa hluti. Ég er svo sem engu nær um hvort til standi, milli 2. og 3. umr., að breyta um kúrs og skilgreina hversu stór eða mörg veiðisvæðin verði og hvað eigi að liggja til grundvallar annað en þær yfirlýsingar sem ráðherrann var með hér áðan um að þau eigi að dreifast á landið allt og hvort einhver svæðaskipting geti gengið upp. Auðvitað hlýtur það að vera markmiðið. Maður veltir fyrir sér hvort komi til greina af hálfu ráðuneytisins og hæstv. ráðherra að það verði eitt veiðisvæði og jöfn skipting á mánuði allan tímann til þess að tryggja að ekki sé hægt að veiða allt upp á fyrsta mánuði, enda liggur það svo sem í augum uppi að það gerist ekki því að veiðarnar hefjast væntanlega hér fyrir Suðurlandinu og færast síðan vestur um með sumrinu.

Í sambandi við þessa úttekt sem ráðherrann minntist á: Ég var eiginlega að kalla eftir að haldið yrði áfram með hana og kannski fenginn annar óháður aðili þannig að ekki sé alltaf leitað til þess sama. Það getur verið snjallt að fá álit annars. Það gladdi mig reyndar að hæstv. ráðherra minntist á að bæði hefðu komið fram kostir og gallar. Ég minnist þess að í framsöguræðu hans við 1. umr. hafi hann tínt til ansi marga kosti en ekki einn einasta galla.

Það væri æskilegt að slík úttekt yrði gerð og hún yrði víðtækari þar sem tekið yrði tillit til heildaráhrifa á byggðarlög. Það er ljóst að verið er að taka hluta af atvinnu fólks og vinnu frá einum hóp og færa til annars.