Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 17:32:51 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi önnur atriði sem hv. þingmaður minntist á, eins og að magnið sem mætti veiða væri fastsett, þá er það líka sett í lög. Það er Alþingis að breyta því magni, það er ekki í hendi ráðherra. Sömuleiðis með fjölda veiðidaga og vikur, gert er ráð fyrir að það verði ákveðið í lögum.

Það er ekki stefna ráðuneytisins að hafa þetta eitt svæði. Ég hef gengið út frá því að það verði í höfuðdráttum með líkum hætti eins og það var á síðastliðnu sumri.

Ég legg áherslu á að þessu verði fylgt vel eftir, fylgst verði mjög vel með. Ég vil geta þess að Landssamband smábátaeigenda hefur ákveðið í samvinnu við ráðuneytið og Matvís að gera úttekt á meðferð afla og hvernig megi tryggja betur verðmæti aflans þannig að sem mest komi í land og verði nýtt, eins og gert var með frystitogarana og stærri skip. Mjög góð skýrsla var unnin þá og verður framhald á.

Samtök smábátaeigenda og ráðuneytið munu fylgja þessum málum mjög vel eftir. Rætt hefur verið um að halda námskeið fyrir smábátasjómenn um meðferð afla (Forseti hringir.) og hvernig hægt er að fara sem best með hann þannig (Forseti hringir.) að verðmætin sem koma að landi verði sem mest, frú forseti.