Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 17:59:17 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan var þetta tiltekið í fyrrasumar þegar heildaraflamarkið var gefið út, það voru eindregin áform um að leggja fram frumvarp um áframhaldandi strandveiðar. Það var hluti af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og að síðan yrði fylgt eftir þeirri tilraun sem gerð var í fyrrasumar, en með þessum hætti. Þó að hv. þingmaður geti tínt til einhverja agnúa að eigin mati á þessu held ég að á heildina litið hafi verið mjög góð sátt og almenn ánægja með að út í þessar strandveiðar var farið í fyrrasumar. Þarna er tiltekið ákveðið magn, sett mjög ákveðin umgjörð. Þeir sem ætla að fara út í atvinnuveiðar á öðrum forsendum og veiða utan þessara skilgreindu afmarkana verða í núverandi kerfi að komast yfir aflaheimildir með öðrum hætti. Þessar veiðar eru ekki hugsaðar til að koma þar inn.

Engu að síður skipta þær miklu máli fyrir þær sjávarbyggðir sem eiga skammt á miðin og þar sem menn hafa möguleika til að stunda veiðar, þótt undir þessum annmörkum séð. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að þetta frumvarp verði að lögum sem fyrst þannig að þeir sem ætla sér og vilja komast á þessar veiðar geti gert það. Það var gert ráð fyrir að þetta gæti hafist 1. maí. Við vitum að þorskurinn kemur (Forseti hringir.) misjafnlega upp að ströndinni, þess vegna skiptir þetta mjög miklu máli. Ef menn vilja breyta (Forseti hringir.) þessum lögum síðar meir, frú forseti, er það Alþingis.